Kyoto þá, París nú
Kyoto þá, París nú
Ísland fullgilti Kyoto-bókunina 23. maí 2002 (https://www.visindavefur.is/svar.php?id=4592). Þegar það var gert var Akureyri allt önnur en hún er í dag. Þá var ekki byrjað að bjóða frítt í strætó, allur úrgangur var urðaður á Glerárdal, það voru engir raf- eða metanbílar í boði og kolefnisbinding með skógrækt var bara á hugmyndastigi (hjá Fræbblunum http://kolvidur.is/um-kolvid/upphafid-hugmyndin-stofnendur/)
Núna 16 árum og ansi mörgum loftslagsráðstefnum síðar getum við á Akureyri ferðast um frítt í strætó, flokkað, endurunnið eða endurnýtt pappa, pappír, plast, fernur, ál, timbur, dagblöð, rafhlöður, föt, húsgögn, raftæki o.fl., gert við biluðu raftækin okkar sjálf (https://www.restarticeland.org), komið lífrænum úrgangi í moltugerð, flokkað matarolíu og fitu og sett í lífdísilframleiðslu, hlaðið bílinn við Hof og Glerártorg og ekið um á íslensku rafmagni, nú eða metani úr gamla ruslinu á Glerárdal, sem er jafnframt 30% ódýrara en bensín, og svo getum við plantað trjám til að kolefnisjafna flugferðirnar.
Innviðirnir eru því rétt að verða klárir fyrir París og það eina sem er eftir er að fólk breyti um bíl, hegðun, venjur og viðhorf og þá er þetta komið. Eða er það kannski flóknasti hlutinn af þessu, snérist þetta kannski aldrei um innviðina heldur innri manninn :-) ?
Vistorka er í opinberri eigu og er verkfæri og vettvangur bæjarins og bæjarbúa til að innleiða verkefni eins og hleðslustöðvar og söfnun á notaðri steikingarolíu. Ef það er eitthvað fleira sem við getum gert til að létta fólki og fyrirtækjum lífið við að ná Parísarmarkmiðunum þá er hægt að senda póst á ghs@vistorka.is eða setja “komment” við stöðufærslu Vistorku á Facebook þar sem þessi pistill birtist.