Samgöngusáttmáli
Samgöngusáttmáli
Ég legg hér með til við bæjarfulltrúa, bæjarstjóra og aðra bæjarbúa að við gerum með okkur eftirfarandi Samgöngusáttmála fyrir bæinn okkar. Sáttmálinn snýst um að við ætlum að hætta smám saman að nota olíu í samgöngum (og standa þannig við Parísarsamkomulagið), fækka bílakílómetrum og fjölga göngu-, hjóla- og strætóferðum. Engar öfgar og enginn asi, engin krafa um bíllausan lífsstíl eða bönn á bensín- og dísilbíla. Bara minnka eitt og auka annað.
Bíll, strætó, hjól og fætur eru allt samgöngutæki sem veita sömu þjónustu, færa einstaklinga frá A til B, en bjóða vissulega mismunandi þjónustustig og mikill munur er á milli lausna hvað varðar fjárfestingu, rekstrarkostnað og umhverfisáhrif.
Bensín- og dísilbílar
Bíll sem samgöngutæki er mjög dýr þjónusta. Íslandsbanki setti nýlega fram dæmi um bíl sem kostar 2,8 milljónir í innkaupum. Óumflýjanlegur rekstrarkostnaður er eldsneyti, dekk, viðhald á vél, tryggingar, skoðun og bifreiðagjöld og svo lækkar bíllinn í verði með tímanum. Samkvæmt dæmi bankans er rekstrarkostnaður vegna þessara þátta um 1,2 milljónir á ári. Á Íslandi eyðir hver bíll að meðaltali um 1.000 lítrum af eldsneyti á ári, sem losa um 2.600 kg af CO2. Bensín- og dísilbílaeigandi sem rekur slíkan bíl í 50 ár losar því sem nemur 130.000 kg af CO2 á ævi sinni, bara vegna færslu á milli staða. Fyrir þjónustustig fær bensín- og dísilbíllinn hæstu einkunn en aftur á móti þá langlægstu fyrir kostnað og umhverfisáhrif.
Metan- og rafbílar
Nú þegar eru ágætar aðstæður til að skipta úr olíu- í metan- eða rafmagnsbíl á Akureyri, en í byrjun árs 2020 var hlutfall þessara bíla af heildarflotanum á Akureyri rúmlega 5%. Þessar aðstæður munu batna til muna á næstu árum. Um metan- og rafbíla gilda flest sömu lögmál og gilda um olíuknúna bíla enda er það aðeins orkan til að færa tækið á milli staða sem skilur þá fyrri frá hinum seinni. Rafbílar hafa þó mikla yfirburði á ýmsum sviðum; þeir eru með bestu orkunýtnina, þurfa minna viðhald, valda engri mengun og minni hávaða, og hafa miklu meiri hröðun. Rekstrarkostnaður rafbíls er svo bara brot af rekstrarkostnaði bensínbíls. Varðandi umhverfismálin þá skora metanbílar hátt þar sem þeir draga ekki aðeins úr innflutningi á olíu heldur draga þeir á sama tíma úr losun á metani.
Hjá langflestum fjölskyldum er bíll næst stærsta einstaka fjárfestingin á eftir húsnæði. Miðað við dæmið frá Íslandsbanka er heildarkostnaðurinn á 10 árum um 15 milljónir, sem eru miklir fjármunir fyrir langflestar fjölskyldur í landinu. Með því að fækka eknum kílómetrum á ári seinkum við endurnýjunarþörf og þar með fjárfestingaþörf flotans í nýjum bílum og varahlutum og drögum úr rekstrarkostnaði á ári. Einnig minnkar CO2-losun, loftgæði batna, hávaði minnkar og sparnaður verður í viðhaldi gatna.
Verulegt hlutfall af fjármunum bæjarbúa fer í bílaflotann á hverju ári. Ef við notum meðalverð Íslandsbanka er heildarvirði 15.000 bíla flota Akureyringa 42.000.000.000 krónur. Og aftur, ef við notum rekstrartölurnar, þá fara árlega 18 milljarðar úr veski bæjarbúa í rekstur flotans. Síðan bætist við allt sem fer úr sameiginlegum bæjarsjóði í nýframkvæmdir, snjómokstur og viðhald gatnakerfisins. Öllu þessu til viðbótar losar flotinn um 40.000 tonn af CO2 á hverju ári og veldur svifryksmengun.
Fækkum bílakílómetrum
Ég vænti þess að á árinu 2020 muni Akureyrarbær í fyrsta sinn samþykkja sérstakt heildarskipulag fyrir stígakerfi bæjarins og framkvæmdaáætlun á grundvelli þess sem hluta af aðalskipulagi bæjarins. Einnig að lokið verði við endurskoðun á umhverfis- og samgöngustefnu, að leiðarkerfi strætó verði uppfært og að niðurstaða um framtíðarstaðsetningu samgöngumiðstöðvar liggi fyrir.
Allt það sem nefnt er hér að ofan var þegar í gangi áður en Covid-19 faraldurinn skall á okkur. Í kjölfar hans hafa borgir og bæir um allan heim farið í mikla og hraða endurskipulagningu á samgöngum sínum, með áherslu á breyttar ferðavenjur. Við höfum einstakt tækifæri til hins sama hér á Akureyri, vegalengdir milli helstu staða eru mjög stuttar og síðan lærðum við að vinna og læra heima, sem við getum nýtt okkur í illviðri og ófærð og létt um leið álaginu af snjómokstri og fækkað bílakílómetrum.
Breyttar ferðavenjur
Strætó. Árskort í strætó á höfuðborgarsvæðinu kostar um 75.000 kr. en á Akureyri er frítt í strætó. Vissulega hefur strætó lægra þjónustustig en einkabíllinn en með góðu skipulagi og útsjónarsemi er hægt að nýta strætó miklu meira, bæði innanbæjar og milli landshluta, með ótrúlega miklum sparnaði í útgjöldum heimila.
Reiðhjól og rafhjól. Hægt er að kaupa ódýr reiðhjól sem duga vel fyrir styttri ferðir inanbæjar. Þeim fylgja lágmarks viðhald, góð áhrif á umhverfi og sérlega góð heilsubætandi áhrif. Rafhjólin „fletja út kúrfuna“ eða brekkuna. Snilldin við rafhjól er að þau gera allt landslag flatt og nýta íslenska raforku í bland við líkamsorku. Mjög gott rafhjól er álíka þung fjárfesting og bílpróf. Rafhjól mynda ekkert umhverfisspor í rekstri á Íslandi og bjóða upp á mjög gott þjónustustig í innanbæjarsamgöngum.
Ganga. Hægt er að komastfótgangandi um Akureyri á styttri tíma en flestir halda. Ganga er algerlega kostnaðarlaus og leiðir af sér mikinn heilsfarsábata. Sem dæmi búa börn í grunnskóla á Akureyri langflest innan við 1 km frá skólanum sem er næst þeim. Flest börn eru því innan við 10 mínútur að labba í skólann. Í nýju stígaskipulagi er mikil áhersla lögð á aðgengi og þjónustu á göngustígum bæjarins.
Stefna og markmið
Stefna stjórnvalda er skýr, bæði hjá ríki og bæ. Við þurfum að draga úr olíunotkun, og þá fyrst og fremst í samgöngum, ef við ætlum að ná markmiðum okkur varðandi losun CO2 í andrúmsloftið. Það er eitt en síðan er hitt að við viljum draga úr bílaumferð og fækka bílakílómetrum á Akureyri, einfaldlega vegna þess að augljóst er að það er efnahags- og umhverfislega hagkvæmt. Hver bílakílómetri er nefnilega, eins og fyrr segir, mikil fjárhagsleg stærð bæði fyrir eigendur bíla og okkar sameiginlega bæjarsjóð.
Markmið sveitarfélagsins á að vera að enginn samgöngumáti bitni á öðrum og að allir eigi að hafa fullt val um að ferðast um bæinn óháð aðstæðum eða efnahag enda samgöngukerfið sameign allra bæjarbúa, sama með hvaða hætti ferðast er á milli staða.
Með Samgöngusáttmálanum langar mig að hvetja alla bæjarbúa til að innleiða smátt og smátt breytingar á ferðavenjum sínum og fækka bílakílómetrum, með því að t.d. að draga úr skutli og óþarfa bílferðum, nýta hjólreiðar í auknum mæli og hoppa upp í strætó þess á milli.
Sveitarfélagið gæti lagt sitt af mörkum með því að:
- Bæta þjónustustig strætó
- Hrinda stígaskipulagi sem fyrst í framkvæmd
- Bæta aðstöðu fyrir reiðhjól á vinnustöðum bæjarins og hvetja aðra til þess sama
- Byggja upp öruggt og skilvirkt samgöngukerfi fyrir alla ferðamáta
- Liðka fyrir innleiðingu deilibíla og deilihjóla
- Fræða íbúa um kosti þess að nýta fjölbreytta ferðamáta
Niðurstaða
Einstaklingur sem ákveður að fækka bílakílómetrum með því að breyta ferðavenjum sínum hefur veruleg þjóðhagsleg áhrif. Endingartími bíls er ekki talinn í árum heldur kílómetrum og því lengur sem bíllinn endist dregur úr þörf á gjaldeyri til að fjármagna innflutning á nýjum bíl og öllu því sem fylgir; eldsneyti, dekkjum og varahlutum. Minna álag á götur og vegi dregur verulega úr fjárfestinga- og viðhaldsþörf. Og svo auðvitað hið augljósa, að færri bílakílómetrar skila strax minni mengun og auknu fjárhagslegu svigrúmi, bæði í heimilisbókhaldi íbúa og hjá bæjarsjóði, og bónusinn er auðvitað stórbætt lýðheilsa og skemmtilegra bæjarlíf.
Guðmundur Haukur Sigurðarson
Framkvæmdastjóri Vistorku ehf.
Greinin birtist fyrst í Vikublaðinu