Ókeypis pitsa á hverjum degi
Ókeypis pitsa á hverjum degi
Vissulega er þessari fyrirsögn beint að ungmennum landsins sem vonandi heillast af þessu magnaða tilboði. Þó að mikil samkeppni sé á flatbökumarkaði hér á landi þá eru ókeypis pitsur sjaldan í boði, hvað þá daglega. Lýðheilsustofnun mælir nú varla með daglegri pitsuveislu en þetta er nú meira sett fram til að benda á hvernig hægt er, með auðveldum hætti, að búa til fjárhagslegt svigrúm til að gera þennan draum að veruleika.
Hér er í raun verið að fylgja eftir fyrri skrifum Guðmundar hjá Vistorku sem hefur verið óþreytandi að kynna kosti bílminni lífstíls í smábænum Akureyri. Kveikjan að pistlinum er kannski saga af foreldri ungmennis sem nýlega hafði keypt sinn fyrsta bíl og var stanslaust að koma með ómótstæðilegt tilboð um að foreldrarnir splæstu í pitsu. Mótframlag ungmennisins var svo að bjóðast til að sækja hana á nýja bílnum sínum. Tillaga mín til foreldranna var að bjóða honum ókeypis pitsu á hverjum degi þar sem mótframlag hans væri að losa sig við bílinn.
Skoðum þessar tölur. Samkvæmt Félagi íslenskra bifreiðaeiganda er rekstrarkostnaður þriggja milljón króna bifreiðar hvorki meira né minna en tólfhundruð þúsund á ári. Það gleymist oft að rekstrarkostnaður bíla er svo miklu meira en eldsneyti. Það þarf jú að borga fyrir tryggingar, dekk, bifreiðagjöld, almennt viðhald o.s. frv. Síðan eru hinar yndislegu afskriftir þar sem eignin rýrnar stanslaust með hverjum eknum kílómetra. Þetta eru bara staðreyndir þó margir vilji loka augunum gagnvart þeim. Auðvitað er hægt að draga eitthvað úr afskriftarkostnaði með ódýrari bíl en annar kostnaður er þokkalega þrautseigur. Tólfhundruð þúsund króna kostnaður er einmitt um 3.300 kr á dag, sem dugar einmitt fyrir veglegri flatböku með nokkrum áleggstegundum.
En getur ungmenni verið bíllaust á Akureyri? Akureyri er stór sál í litlum líkama. Frá miðpunkti bæjarins, kemstu hvert sem er á innan við korteri á hjóli. Stærðfræðingar átta sig þá líka á að eigir þú erindi endanna á milli í bænum, þá kemstu þangað á innan við hálftíma. Sumir Akureyringar eru með stórborgarblæti og fá bara minnimáttarkennd við þessa staðreynd. Málið er hinsvegar að þjónustulega séð er Akureyri stórborg þannig að stuttar vegalengdir eru í raun bara ótrúlega eftirsóknarverð lífsgæði. Rafhjól leysa algerlega brekkuvandann og ef þú kryddar göngu eða hjólreiðar með ókeypis metan strætó og hlaupahjólaleigu þá er Akureyri algjör draumastaður fyrir hagstæðustu samgöngukosti sem í boði eru.
Líklega er þó best að beina þessu nýfengna fjárhagslega svigrúmi ungmennisins í sparnað frekar en pitsur. Þannig getur draumur beggja ræst þ.e. ungmennið getur með tímanum safnað sér fyrir útborgun í íbúð og foreldrarnir sjá fram á vonina um að losna einhvern tíma við afkomandann úr hreiðrinu.