Fara í efni

Samgöngur

Hugmyndin SKREF snýst um hvernig við getum dregið úr notkun á fólksbílnum með breyttum ferðavenjum. Breyttar ferðavenjur eru alger lykilaðgerð í loftslagsmálum á Íslandi. Auknar hjólreiðar, ganga og almenningssamgöngur eru auðveldasta leiðin til að minnka eldsneytisnotkun og útblástur frá samgöngum. Slíkt stuðlar einnig að aukinni hreyfingu og bættri heilsu. Einfaldast er að minnka óþarfa bílferðir þar sem vegalengdir eru viðráðanlegar. Allt of margir ferðast um í einkabílum stuttar vegalengdir sem auðvelt væri að dekka með göngu eða hjólreiðum. Þessu þarf að breyta. Ein hugafarsleg hindrun er annars vegar ofmat á ferðatíma göngu og hjólreiða og hins vegar vanmat á ferðatíma bílferða.

Verkefnin, sem hvert og eitt má finna í valstikunni hér fyrir ofan, eru öll hluti af hugmyndafræðinni SKREF og eru samstarfsverkefni Vistorku og Orkuseturs

Geimstofan á Akureyri hannaði merki verkefnisins og lýsir merkinu þannig: „Línurnar tvær í táknmynd tákna skref og línurnar taka skref/hugmyndir út fyrir kassann. Táknið myndar stafinn S sem er upphafsstafur Skrefs.“

KortEr er tæknilausn utan um alþjóðlega hugmyndafræði sem snýst um að allir íbúar geti fullnægt flestum þörfum sínum í stuttri göngu- eða hjólaferð frá heimili sínu. Verkefnið samanstendur af vefsíðu, appi og prentuðu korti. Á vefsíðunni korter.vistorka.is  má finna hnappa til að sækja appið fyrir bæði android- og iphone-síma.

Gangandi: Þegar gangandi er valið birtist það svæði sem er innan 15 mínútna göngufæris viðkomandi.

Hjólandi: Þegar hjólið er valið birtist það svæði sem er innan 15 mínútna hjólafæris viðkomandi.

Strætó og þjónusta: Þegar hakað er við strætó eða þjónustu birtast á kortinu þær strætóleiðir og sú þjónusta sem er á viðkomandi stað.

Panta plakat: Hægt er að panta útprentun með því að smella á þennan hnapp. Fylla þarf út eyðublaðið sem birtist. Beiðnin fer beint á Geimstofuna sem mun hafa samband til baka til að staðfesta pöntunina og afhendingartíma.

Stika: Hægt er að draga stikuna til frá 0–30 mínútna og um leið breytist það svæði sem sýnt er á kortinu.

Verkefnið er samstarfsverkefni Vistorku, Orkuseturs, Reykjavíkurborgar og Umhverfis- og auðlindráðuneytisins.

Verkefnið SEGULLINN samanstendur af tveimur hlutum; málmplötu og færanlegri stiku með segli. Notendur geta valið upphafsstað og séð hversu langan tíma það tekur að hjóla eða ganga tiltekna vegalengd. Þannig er auðvelt að gera sér grein fyrir hversu fljótur viðkomandi er að komast milli staða án bifreiðar. Einnig nýtist segullinn vel til að meta ferðatíma frá strætóstoppistöðvum til sérstakra áfangastaða. Segulstikan gerir ráð fyrir að það taki 4 mínútur að hjóla og 12 mínútur að ganga 1 km.

Almenningssamgöngur

Almenningssamgöngur eru samgönguform sem löngum hefur átt erfitt uppdráttar á Íslandi. Lítil hefð hefur verið fyrir því að nýta almenningssamgöngur innanbæjar sem og milli landshluta. Einkabíllinn hefur löngum þótt vera meira aðlaðandi valkostur í samgöngum þar sem sá sveigjanleiki og þægindi sem hann býður upp á eru að margra mati ótvíræð. Á síðustu árum hefur umræðan um bættar almenningssamgöngur orðið sífellt fyrirferðarmeiri og aukinn þrýstingur er á að efla samkeppnishæfni almenningssamgangna og draga úr vægi einkabílsins.

Tilgangur og markmið

Tilgangur og markmið þessa námskeiðs er að kynna strætó fyrir grunnskólabörnum á aldrinum 10–11 ára og gera þau að sjálfstæðum notendum strætó. Markmiðið er að nemendur geri sér grein fyrir þeim samfélagslega og persónulega ávinningi sem þau hafa af því að nota strætó. Nemendur læra um sparnað sem hlýst af notkun strætó, áhrif einkabílsins á umhverfið og hvað ávinnst með notkun almenningssamgangna. Einnig læra þeir að lesa á leiðarkerfi og læra þannig á nærumhverfi sitt, að lesa úr tímatöflum og að skipuleggja ferðir sínar.

Tengsl við grunnstoðir aðalnámskrár

Þekkingarviðmið

 Nemandinn öðlast þekkingu og skilning á umhverfisáhrifum samgangna og helstu umgengnisreglum í almenningsvögnum, og lærir hvar upplýsingar er að finna um ferðir almenningsvagna.

Leikniviðmið

 Nemandinn skal hafa öðlast leikni í að lesa úr leiðarkerfum almenningsvagna, að lesa úr tímatöflum og að skipuleggja ferðir sínar með almenningsvögnum.

Hæfniviðmið

 Nemandinn skala geta hagnýtt þá þekkingu og leikni sem hann hefur aflað sér til að skipuleggja ferðir sínar og nýta sér á sjálfstæðan hátt þjónustu almenningsvagna.

Loftgæði segja til um hversu gott loftið er sem við öndum að okkur. Mengun getur verið í loftinu og haft áhrif á líðan einstaklinga sem eru með astma og undirliggjandi lungnasjúkdóma og/eða hjartasjúkdóma. Fínar agnir hafa meiri áhrif á heilsufar fólks en grófar agnir.

Í andrúmsloftinu eru sem sagt ýmsar agnir sem geta verið ýmist á vökvaformi eða föstu formi. Svifryk er það sem hefur hvað mest áhrif á gæði lofsins. Þegar talað er um svifryk er átt við agnir sem eru minni en 10 µm og geta svifið um loftið og borist langt frá uppsprettum fyrir áhrif vinda.

Svifryki er skipt í gróft svifryk, sem er þá á milli 2,5–10 µm að stærð, og fínt svifryk, sem er minna en 2,5 µm. Gróft svifryk á yfirleitt uppruna sinn í náttúrulegum uppsprettum en fínt svifryk er hins vegar oftast til komið af mannavöldum, þ.e. frá bruna eldsneytis, umferð eða iðnaði.

Nokkrir þættir geta haft áhrif á aukinn styrk svifryks í lofti og má þar nefna kalda vetrardaga þar sem loft er þurrt og mikil stilla er til staðar og því lítil hreyfing á loftinu. Mikil umferð og mikið rok getur einnig valdið uppfoki. Þá blásast upp í andrúmsloftið grófar agnir frá jarðvegi.

Umhverfisstofnun og Akureyrarbær reka loftgæðamæli sem staðsettur er í Standgötu við menningarhúsið Hof. Hægt er að fylgjast með loftgæðum bæjarins á eftirfarandi slóð:

Loftgæði á Akureyri

Upplýsingarnar hér að ofan eru fengnar af heimasíðu Umhverfisstofnunar.

Svifryk