Úrgangur
Í hvert skipti sem vara er framleidd hefur verið nýtt orka, tími, peningar og hráefni úr einhverri af takmörkuðum auðlindum jarðar. Það er því algjört undirstöðuatriði í skynsamlegri nýtingu auðlinda að hver vara hafi langan líftíma eða nýtist vel. Neysluhyggja og sóun er eitt stærsta umhverfisvandamál jarðar. Til þess að geta áfram nýtt þessar auðlindir er mikilvægt að skapa hringrásir þar sem vara sem hefur verið notuð fer ekki í urðun heldur er flokkuð og endurnýtt með einhverjum hætti.
Með því að flokka og stuðla að því að vara fari í hringrásarkerfi erum við að gera úrgang að vöru. Lykilinn að því að endurvinnslan gangi vel er þó að ferlið sé hagkvæmt og að almenningur og fyrirtæki leggi sitt af mörkum í að hreinsa og flokka rétt það sorp sem fellur til.
Göngum vel um matarauðlindina og nýtum alla orkuna í eldhúsinu. Kaupum ekki meiri mat en við þurfum á að halda, nýtum sem best alla þá orku sem við kaupum og komum því sem við ekki borðum áfram í réttan farveg svo orkan úr matnum nýtist áfram með einhverjum hætti; matargjafir eða jarð-, metan- og lífdísilgerð.
Lífrænn úrgangur fellur til á ýmsum stöðum og hægt er að nýta hann með mismunandi hætti.
EKKERT LÍFPLAST (FYRIR UTAN POKANN SEM LÍFRÆNA SORPIÐ ER Í) Á AÐ FARA Í JARÐGERÐ.
ALLT NIÐURBRJÓTANLEGT LÍFPLAST Á AÐ FARA Í ALMENNT SORP - SJÁ NÁNAR Í FLIPA UM LÍFPLAST.
EF RÚLLA AF GRÆNU POKUNUM ER ÓNÝT Á EKKI AÐ SETJA HANA MEÐ Í GRÆNU KÖRFUNA, HÚN Á AÐ FARA Í ALMENNT SORP.
Græna trektin er önnur leið þar sem íbúar geta flokkað lífrænan úrgang. Hún er notuð til að safna notaðri steikingarolíu frá heimilum sem er svo flutt ásamt olíu frá iðnaði og veitingastöðum til framleiðslu á lífdísli.
Lífrænan úrgang má líka nýta til framleiðslu á öðrum afurðum eins og glýseróli, metani, vetni, etanóli og metanóli.
Hugtakið lífplast (e. bioplast) er samheiti yfir plast sem á uppruna sinn í lífmassa (e. biobased plastic) og nær einnig yfir lífbrjótanlegt plast (e. biodegradable) sem á uppruna sinn í jarðolíu.
Þetta getur verið ruglingslegt þar sem lífplast getur bæði verið lífbrjótanlegt og ekki lífbrjótanlegt, auk þess sem það getur verið af lífrænum uppruna og úr jarðolíu.
Lífplast flokkast því ekki allt með sama hætti:
Lífplast sem er af lífrænum uppruna en er ekki lífbrjótanlegt (Bio-PE, bio-PET og bio-PP) á að flokka sem hefðbundið plast.
Lífplast sem er af lífrænum uppruna og er lífbrjótanlegt (Sterkjublöndur, PLA, PHA, PHB) Er markaðsett sem lífbrjótanlegt en niðurbrot þess verður einungis við ákveðnar aðstæður og eru þær aðstæður til að mynda ekki fyrir hendi í jarðgerðastöðinni Moltu ehf.
Á Akureyri eiga því þessar umbúðir að fara með almennu sorpi.
Lífplast sem unnið er úr jarðolíu en er lífbrjótanlegt (PCL, PBS, PBAT) á að flokka með almennu sorpi, ekki með hefðbundnu plasti.
Myndin til hægri sýnir helstu tegundir lífplasts og hefðbundins plasts, hver er uppruni þeirra og hvernig/hvort þær brotna niður.
Endurvinnsla á plasti er mishagkvæm og fer hagkvæmnin eftir samsetningu plastsins en plast er flokkað í 7 meginflokka.
Það umbúðaplast sem flokkað er í grenndargáma á Akureyri er flutt á móttökustað, baggað og svo sent til frekari flokkunar til Svíþjóðar. Það sem ekki er hægt að endurvinna vegna samsetningar efnis er brennt til orkunýtingar þar í landi.
Pure North Recycling er fyrirtæki á Íslandi, nánar tiltekið í Hveragerði, sem endurvinnur plast með endurnýtanlegum orkugjöfum, aðallega jarðvarma. Fyrirtækið tekur við ákveðnum plasttegundum, svo sem heyrúlluplasti og harðplasti. Notaða plastið fer þá hreinsun og í vinnsluferli og er afurðin sem úr því er unnin plastperlur sem svo er hægt að nýta í framleiðslu á nýjum plastvörum. Markmið endurvinnslunnar er að plast verði aftur að plasti og að fullvinnslan skilji eftir sig sem minnst eða ekkert kolefnisspor en engin kemísk efni eru notuð við vinnsluna.
Pure noth recycling endurvinnur megnið af því heyrúlluplasti sem tilfellur á Íslandi eða um 2000 tonn á ári. Pure North Recycling er að taka sín fyrstu skref í endurvinnslu á harðplasti og stefnir að því að endurvinna að auki umbúðaplast en 95% af óendurunnu umbúðaplasti eru flutt úr landi. Það er því til mikils að vinna en áætlað er að fyrir hvert tonn sem endurunnið er af plasti sparist um 1,8 tonn af olíu.
Flokkun pappírs má skipta í þrennt:
1. Bylgjupappa: Þetta eru t.d. pappakassar, pizzukassar, millispjöld af vörubrettum og ýmiss konar hlífðarumbúðir.
Pappinn sem flokkaður er á grenndarstöðvar Akureyrarbæjar er losaður á móttökustöð Terra í Réttarhvammi. Þar er hann pressaður í stóra bagga og fluttur beint frá Akureyri til Hollands í endurvinnslu.
_____________________________________________________________________________________________________________________________________________________
2. Dagblöð og tímarit: Þetta eru t.d. dagblöð, tímarit, bæklingar, umslög, prentara- og skrifstofupappír og gjafapappír sem ekki er með glimmeri eða málmáferð/ húð.
Sá pappír sem flokkaður er á grenndarstöðvar Akureyrarbæjar er nýttur sem stoðefni í jarðgerð hjá Moltu. Það sem ekki nýtist í moltuframleiðslu er flutt til Hollands og selt þar á markaði.
_____________________________________________________________________________________________________________________________________________________
3. Drykkjarfernur og sléttur pappír: Þetta eru umbúðir undan t.d. mjólkurvörum, ávaxtasafa, morgunkorni og kexi.
Þær fernur og pappaumbúðir sem flokkaðar eru á grenndarstöðvar Akureyrarbæjar eru losaðar í móttökustöð og baggaðar til útflutnings. Baggarnir eru fluttir beint frá Akureyri til Hollands.
(Jóla- og gjafapappír með glimmeri og málmáferð er ekki hægt að endurnýta og þarf að fara í almennt rusl sem verður svo urðað.)
_____________________________________________________________________________________________________________________________________________________
Málmar eru verðmætt hráefni sem hægt er að endurvinna margoft án þess að verðmæti þeirra minnki.
Efni af þessu tagi er af skornum skammti í heiminum og á því alls ekki að fara með óflokkuðum úrgangi.
Það sem flokkast sem málmar eru niðursuðudósir, álpappír, lok af glerkrukkum, herðatré úr vír, hefti og álumbúðir, t.d. undan sprittkertum
Til að framleiða 1 tonn af áli þarf a.m.k. 4 tonn af báxíti, 100 kg af 50% vítissóda, 400 kg af kolefni, 15.000 kwst af raforku, 100 kg af kalki, 20 kg af álflúoríði og hátt í 10.000 lítra af vatni. Auk þess verða til við framleiðsluna á báxítinu 2 tonn af hættulegri rauðri úrgangsleðju. Svo er það útblásturinn frá álverunum en í honum er 1,5 tonn af koltvísýringi og dálítið af flúoríði, brennisteinsoxíði, ryki o.fl.
Fyrir hvert kíló af áli sem fer í endurvinnslu í stað urðunar minnkar CO2 útblástur um 9 kg.
Við endurvinnslu á áli þarf aðeins að nota um 5 % af þeirri orku sem notuð var við framleiðslu á sama magni af nýju áli. Þá sparast líka báxítið og vítissódinn og stór hluti vatnsins, auk þess sem losun CO2 í útblæstri við framleiðslu á endurunnu áli er verulega lítil. Punkturinn yfir i-ið er svo að endurunnið ál hefur sömu eiginleika og er því jafn gott og nýtt ál.
Það er því gríðarlega mikilvægt að flokka allt það ál sem fellur til og skila því í endurvinnslu. Málmunum sem flokkaðir hafa verið er komið til málmendurvinnslufyrirtækjanna - Furu eða Hringrásar. Þeir aðilar flytja málmana úr landi þar sem þeir fara í bræðslu eða til endurnýtingar.
Mikilvægt er að flokka allt gler og aldrei setja það í almennt sorp þar sem það getur brotnað og valdið slysum.
Það sem flokka á sem gler er brotið og skemmt leirtau, glerkrukkur (lok eiga að fara með málmi), blómapottar, glös, glerflöskur, ilmvatnsglös og speglar.
Ljósaperur flokkast ekki sem gler heldur spilliefni og eiga því ekki heima í þessum endurvinnsluflokki.
Allt gler sem fellur til er mulið og hægt að nota glermulningana í fyllingarefni við framkvæmdir.
Dýrast er að skila óflokkuðum úrgangi, bæði fyrir veskið og umhverfið. Í raun er mjög fátt sem ekki er hægt að flokka og hægt er að komast hjá því að vera með mikið óflokkað efni með því að velja betri kost og sniðganga þannig þær vörur sem ekki er hægt að koma í endurvinnslu.
Sá heimilisúrgangur sem ekki er hægt að flokka eins og staðan er í dag er: bleyjur, dömubindi, bómullarhnoðrar, blautklútar, úrgangur frá gæludýrahaldi, sterkar þurrkur svo sem Tork, tannkrems- og áleggstúpur, nema þær séu mjög vel hreinsaðar, ryksugupokar og sígarettustubbar.
Vistvænni kostur fyrir óflokkaðan heimilisúrgang
Bleyjur er ekki hægt að endurvinna og jafnframt eru mörg óæskileg efni í þeim. Hægt er að kaupa taubleyjur, en þær eru betri fyrir umhverfið og veskið.
Dömubindi, líkt og bleyjur, er ekki hægt að endurvinna og mörg óæskileg efni er að finna í þeim. Hægt er að velja vistvænni vörur fyrir blæðingar eins og álfabikarinn en hann fæst t.d. í öllum apótekum. Einnig hafa Thinx túrnærbuxurnar vakið mikla lukku. Jafnframt er hægt að kaupa margnota dömubindi.
Tannkrem – Hægt er að velja tannkremstöflur í umhverfisvænni umbúðum en plasttúpu, t.d. álbökkum sem hægt er að fylla á.
Hreinsivörur fyrir heimilið eins og hársápa, hárnæring, þvottaefni, uppþvottaefni og þrifsprey er allt hægt að kaupa í fjölnota umbúðum sem hægt er kaupa í áfyllingar aftur og aftur. Einnig er hægt að nota spreybrúsa aftur og kaupa hreinsiefnistöflur sem leysast upp í vatni í stað þess að kaupa nýjan spreybrúsa með hreinsivökva í. Um 90% af hreinsivökvanum í spreybrúsunum er í raun innflutt vatn.
Dýrast er að skila óflokkuðum úrgangi, bæði fyrir veskið og umhverfið. Í raun er mjög fátt sem ekki er hægt að flokka og hægt er að komast hjá því að vera með mikið óflokkað efni með því að velja betri kost og sniðganga þannig þær vörur sem ekki er hægt að koma í endurvinnslu.
Heimilisúrgangur sem ekki er hægt að flokka eins og staðan er í dag:
Ekki hægt að flokka
- Bleyjur,
- Dömubindi og túrtappar
- Bómullarhnoðrar
- Blautklútar
- Tannkrems- og áleggstúpur, nema þær séu mjög vel hreinsaðar
- Úrgangur frá gæludýrahaldi
- Sterkar þurrkur svo sem Tork
- Ryksugupokar
- Sígarettustubbar
Betri kostir
- Fjölnota bleyjur
- Fjölnota dömubindi, tíðarbrækur, álfabikarinn
- Fjölnota hreinsiklútar
- Tuskur, þvottapokar, fjölnota hreinsiklútar
- Tannkremstöflur þar sem hægt er að kaupa áfyllingar
Þótt hægt sé að endurvinna ýmsar einnota umbúðir, t.d. úr áli, pappa eða plasti, er besti kosturinn alltaf að draga úr notkun einnota umbúða.
Vörur þar sem í boði eru áfyllingar eða fjölnota kostir í stað þess að nota einnota:
Einnota vörur eða umbúðir
- Handsápa í pumpu
- Hársápa í plastumbúðum
- Hárnæring í plastumbúðum
- Raksápa/froða í brúsa
- Rakvélar
- Þvottaefni í plast- eða pappaumbúðum
- Uppþvottalögur í plastumbúðum
- Þvottaefni í uppþvottavél í plast- eða pappaumbúðum
- Hreinsiefni í spreybrúsum úr plasti
- Bómullarhnoðrar
- Bleyjur
- Túrtappar
- Dömubindi
- Tannkrem í plasttúbum
- Kaffihylki í plast-/álhylki
- Burðarpokar úr plasti/lífplasti
- Pokar fyrir grænmeti og ávexti úr plasti/lífplasti
Betri kostur: Fjölnota vörur eða áfyllingar
- Sápustykki eða áfylling af fljótandi handsápu
- Hársápustykki eða áfylling af fljótandi hársápu
- Hárnæringarsápustykki eða áfylling af fljótandi hárnæringu
- Hárnæringarsápustykki
- Fjölnota rakvélar
- Áfylling af þvottaefni eða fljótandi þvottaefni
- Áfylling af fljótandi uppþvottalegi
- Áfyllling af uppþvottaefni eða fljótandi uppþvottaefni
- Áfylling, hreinsiefnatöflur sem leysast upp í vatni
- Fjölnota hreinsiklútar
- Fjölnota bleyjur
- Álfabikarinn
- Fjölnota dömubindi eða tíðarbrækur
- Tannkrem í töfluformi þar sem hægt er að kaupa áfyllingar
- Fjölnota kaffihylki eða gamla góða uppáhellta kaffið
- Burðarpokar úr textíl
- Fjölnota netapokar
Dæmi um þvottaefni þar sem hægt er að kaupa áfyllingar af hreinsiefni sem leysist upp í vatni í stað þess að kaupa alltaf nýjan spreybrúsa sem inniheldur líklega um 90% innflutt erlent vatn.
Dæmi um tannkrem á töfluformi þar sem hægt er að kaupa áfyllingar