Græna trektin - Orka úr eldhúsinu
Græna trektin - Orka úr eldhúsinu
Akureyringar eru snillingar í flokkun og endurvinnslu. Hafa reyndar lengi verið í fararbroddi í þeim efnum.
Nú höldum við áfram og tökum fyrir olíu og fitu.
Frá og með fimmtudeginum 28. janúar 2016 verður hægt að nálgast grænu trektina í þjónustuveri Norðurorku, þjónustuanddyri Ráðhússins og á gámasvæðinu við Rangárvelli.
Þá ætlum við að kynna trektina á Glerártorgi næskomandi föstudag 29. janúar frá kl. 16:00 – 18:30 og laugardaginn 30. janúar frá kl. 12:00 til 16:00.
Áherslan er á endurvinnslu með því að koma notaðri olíu og fitu til Orkeyjar sem býr til lífdísel úr henni sem aftur nýtist í samgöngum eða með því að hún fer í jarðgerð hjá Moltu (þ.e. sú fita sem fer í græna dallinn).
Áherslan er líka á að koma í veg fyrir að fitan lendi í fráveitukerfinu og búi þar til stíflur og fari illa með dælur og annan búnað. Mikilvægt er að fanga fituna við upptök hennar það er á heimilum og í fyrirtækjum í stað þess að setja hana í fráveituna. Flytja hana í gegnum kerfi hennar ef svo má segja og reyna síðan að hreinsa hana í hreinsistöð, með miklum tilkostnaði, áður en fráveituvatnið fer í útrás og í viðtakan Eyjafjörð.
Við gerum okkur grein fyrir því að hér er um langtíma verkefni að ræða þar sem mikilvægt er að ná góðu samstarfi við bæjarbúa, en ekki síður veitingastaði og eldhús í fyrirtækjum víðsvegar um bæinn.