Fara í efni

Akureyringar kaupa eldsneyti fyrir 4 milljarða á hverju ári

Guðmundur H. Sigurðarson
skrifar 23. mars 2022

Akureyringar kaupa eldsneyti fyrir 4 milljarða á hverju ári

Ætla má að samfélagið á Akureyri verji um 4 milljörðum á hverju ári í kaup á dísilolíu og bensíni á fólksbíla. Það er hærri upphæð en kostar að byggja upp allt stofnstígakerfi bæjarins fyrir umferð gangandi og hjólandi.

Með orkuskiptum í samgöngum og breyttum ferðavenjum getur samfélagið lækkað árlegan orkukostnað um 3,5 milljarða og aukið tekjur eigin orkufyrirtækja (Norðurorku og Fallorku) um 500 milljónir króna. 

Á Akureyri eru 8 bílar á hverja 10 íbúa og bendir flest til þess að ferðavenjur breytist hægt, jafnvel þótt í því felist mesti ávinningurinn.


Staða orkumála á Íslandi

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið kynnti nýlega skýrslu um stöðu og áskoranir í orkumálum. Í ræðu sinni benti ráðherra á að verkefnin framundan væru mjög stór og alls ekki einföld, og að orkumálin og orkuskiptin sem framundan eru, sem og tækninýjungarnar og lausnirnar í orkumálunum, væru beintengd og grunnur að loftslagsmálunum.

Skýrsla ráðuneytisins kemur í kjölfar mikillar umræðu í samfélaginu undanfarið um virkjanir, raforkuflutning, varaafl, ótrygga orku, orkuskort, orkunýtni og orkuskipti. Í inngangi skýrslunnar kemur fram að markmið og tilgangur hennar sé að draga fram staðreyndir á grundvelli faglegra sjónarmiða og upplýsinga um lykilþætti á sviði orkumála á aðgengilegu formi til upplýsingar fyrir stjórnvöld, hagaðila og almenning.

Orkufyrirtækin sjálf hafa einnig birt sínar greiningar, aðallega á vettvangi Samorku. Á ársfundi sem samtökin héldu nýlega og bar yfirskriftina Græn framtíð: Hvað þarf til? voru kynntar áætlanir um orkuþörf fyrir jarðefnaeldsneytislaust Ísland. Þar kom einnig fram mat á því hver orkuþörfin er fyrir mismunandi samgöngumáta. Samkvæmt þessum greiningum notum við í dag um 300.000 tonn af olíu á hverju ári í innanlandssamgöngur á landi og ganga orkuskiptaspárnar út frá þeirri meginforsendu að markmið stjórnvalda um að Ísland verði óháð jarðefnaeldsneyti árið 2040 verði að veruleika. Hér á eftir verður fjallað um hvernig þessi mál snúa að orkuskiptum á Akureyri, hver staðan er og hvernig hún verður við full orkuskipti. (Neðst á síðunni má finna tengla á skýrslur og annað efni sem er vísað í hér).

Skjáskot úr kynningu Samorku: Spá um orkuframleiðsluþörf til að ná fullum orkuskiptum á Íslandi

Stefna og markmið ríkisins í orkuskiptum í samgöngum

Í stefnu stjórnvalda í orkumálum er bætt orkunýtni og orkusparnaður talið upp sem lykilþættir í að markmið um orkuskipti náist, sem um leið dregur úr þörf á nýrri orkuvinnslu.

Stefnu stjórnvalda í loftslagsmálum fylgir aðgerðaáætlun með 10 aðgerðum þar sem aðgerð A.1 er lýst þannig: „Aðgerðin felur í sér uppbyggingu innviða til að fjölga fólki sem notar virka ferðamáta, svo sem hjólreiðar og göngu.“ Aðgerð A.2 er lýst þannig: „Aðgerðin felur í sér skattastyrki sem hvetja fólk til að nota virka ferðamáta, svo sem hjólreiðar og göngu.“ Þegar kemur að samgöngum á landi eru, sem betur fer, þegar til fjölmargar lausnir sem eru alltaf að styrkjast og fjölga og eru margfalt umhverfisvænni, ódýrari og nýtnari en núverandi bensín- og dísilfólksbílalausnir. Það er því engin tilviljun að tvær fyrstu loftslagsaðgerðir ríkisins varðandi samgöngur á landi snúa að innviðum og ívilnunum fyrir annað en fólksbíla. Því að ferðast á milli staða innanbæjar einn í bíl mætti líkja við að ferðast á milli landa í einkaflugvél; mikill lúxus, dýrasta lausnin, óumhverfisvænt og ósjálfbært en vissulega í mörgum tilfellum þægilegt fyrir notandann meðan á skreppinu stendur.

Staðan í dag er sú að á árinu 2021 voru hreinorkubílar 55% af öllum nýskráðum fólksbifreiðum á Íslandi. Á fyrstu tveimur mánuðum þessa árs er hlutfallið komið upp í 67%. Heildarfjöldi nýskráninga fólksbíla á hverju ári sveiflast mjög mikið en er að meðaltali um 15.000 bílar á ári. Miðað við upplýsingar Samgöngustofu eru í kerfinu í dag 228.000 fólksbifreiðar á skrá, þar af rúmlega 28.000 hreinorkubílar eða rúmlega 12% flotans. Verkefnið er því í raun ekki stærra en svo að það þarf að losna við þessa 200.000 fólksbíla sem ganga á jarðefnaeldsneyti á næstu 17 árum, sem eru 11–12.000 bílar á ári að meðaltali héðan í frá.

Íbúa- og fólksbílaþróun á Akureyri

Íbúum á Akureyri fjölgaði hratt á árunum 1950–1980, en síðan þá hefur fjölgunin verið nokkuð jöfn og að meðaltali rúmlega 1% á ári. Í ljósi sögunnar er hér sett fram spá um íbúaþróun til 2050. Gangi þessi spá eftir mun Akureyringum fjölga um 6.000 manns á næstu 30 árum og mun þá hafa fjölgað um 19.000 manns á 100 árum.

Árið 1950 voru tæplega 11.000 ökutæki (fólks-, sendi-, vörubifreiðar o.s.frv.) skráð á Íslandi öllu, en þau eru í dag 319.000. Samkvæmt upplýsingum frá Samgöngustofu var 15.671 fólksbifreið skráð á Akureyri í febrúar 2022. Ef við skiptum þeim eftir því hvort þær ganga á jarðefnaeldsneyti eða á innlendri orku, að hluta eða alveg, þá lítur skiptingin svona út í lok febrúar 2022:

Þegar þetta er skrifað eru því 1.810 bílar á Akureyri sem geta gengið á akureyrskri orku; rafmagni úr Glerá eða metani af Glerárdal. Orkusetur Íslands hefur miðað við að tengiltvinnbílar séu hálfur rafbíll sem framlag í orkuskipti, sem þýðir að raunstaðan á Akureyri er ekki 12% heldur rúmlega 7%, enda munu tengiltvinnbílar ekki nýtast eftir 2040 og munu því eins og aðrir jarðefnaeldsneytisbílar hverfa úr kerfinu.

Hér má svo sjá þróunina síðustu árin á Akureyri (meðatal hvers árs) og stöðuna í febrúar 2022:

Fjöldi íbúa á Akureyri í febrúar 2022 var 19.635. Í dag eru því 80 bílar á hverja 100 íbúa í bænum. Til samanburðar eru 32 bílar á hverja 100 íbúa í Zurich í Sviss. Það má því segja að þó að orkuskiptin séu á réttri leið á Akureyri benda þessar tölur til þess að ferðavenjurnar breytist lítið.

Samgöngukostnaður samfélagsins á Akureyri

Ef við stillum upp dæmi þar sem hjón eru með samtals útborguð laun upp á 900.000 krónur á mánuði og miðum við rekstrargreiningar bifreiða frá FÍB og Íslandsbanka þá fóru öll laun hjónanna í janúar og 30% af laununum í febrúar bara í bílinn og ef þau reka tvo bíla hafa öll launin hingað til á þessu ári farið í reka bílana tvo.

Ef forsendur FÍB eru síðan notaðar fyrir allan fólksbílaflotann á Akureyri, þ.e. að meðalverð bíls sé um 3 milljónir og reksturinn á ári um 1,2 milljón, þá er samfélagið á Akureyri að reka fólksbílaflota fyrir 19 milljarða á ári. Miðað við að eldsneytisverð nálgast nú 300 krónur á hvern lítra munu Akureyringar kaupa eldsneyti fyrir tæpa 4 milljarða á árinu 2022. Þetta er bara rekstur fólksbílaflotans. Ef við höldum okkur áfram við forsendur FÍB er verðmæti flotans samtals 47 milljarðar. Samfélagið sem heild hefur því fjárfest fyrir 47 milljarða í samgöngutækjum sem kostar 19 milljarða á hverju ári að reka.

Til að setja þessar tölur í samhengi:

    • er rekstur Akureyrarbæjar 20 milljarðar á ári (þar af er rekstur leik- og grunnskóla um 9 milljarðar)
    • kostar 4 milljarða að byggja 40 km af göngu- og hjólastígum (stofnstígakerfið sem byrjað er að byggja upp verður í heild 38 km)
    • er rekstur strætó um 200 milljónir á ári
    • kosta snjómokstur og hálkuvarnir á Akureyri 150–200 milljónir á ári
    • er fyrsti áfangi Borgarlínu höfuðborgarsvæðisins áætlaður 14 km að lengd og kostnaður um 25 milljarðar (samhliða uppbyggingu á Borgarlínunni er gert ráð fyrir 18 km af nýjum hjólastígum og 9 km af göngustígum).

 

Ávinningur orkuskipta og breyttra ferðavenja

Eins og áður segir hafa endalok olíunnar á Íslandi þegar verið ákveðin. Það þýðir að á næstu árum munu öll kaup á orku í samgöngum á Akureyri færast frá olíuríkjum yfir til Norðurorku og Fallorku (sem bæði eru í eigu Akureyringa). Við þessi skipti mun samgöngukostnaður samfélagsins í heild lækka um marga milljarða á ári og um leið styrkist rekstur innlendra dreifi- og orkufyrirtækja.

Eins og kemur fram í inngangi snýst stefna íslenska ríkisins í orkuskiptum í samgöngum í grunninn um tvö verkefni sem bæði þurfa að raungerast fyrr en seinna. Í fyrsta lagi þarf að skipta úr olíu yfir á rafmagn og í öðru lagi að breyta um ferðavenjur.

Orkuskiptin

Líklegur útskiptihraði fólksbílaflotans á Akureyri er um 1.000 bílar á ári (hlutfall af nýskráningum á Íslandi m.v. íbúa), sem þýðir að ef Akureyringar kaupa aðeins rafbíla frá og með næsta ári munu í byrjun árs 2030 vera um 8.000 hreinir rafbílar skráðir á Akureyri. Ef fjöldi bíla á íbúa verður óbreyttur munu þessar forsendur að hámarki skila um 50% orkuskiptum. Ef hlutfall bíla á íbúa lækkar á sama tíma úr 80 bílum á 100 íbúa í 60 gæti hámarksorkuskiptahlutfall orðið 65%.

Æskileg þróun fólksbílaeignar á Akureyri til að markmið í loftslagsmálum og breyttum ferðavenjum náist:

Þegar þessum markmiðum um orkuskipti í samgöngum og breyttar ferðavenjur verður náð mun samfélagið í heild hafa lækkað árlegan orkukostnað um 3,5 milljarða og aukið tekjur eigin orkufyrirtækja um 500 milljónir. Það má því segja að orkuskiptin muni stöðva árlegt 4 milljarða flæði fjármagns út af svæðinu til kaupa á innfluttri olíu.

Ávinningurinn verður ekki aðeins fjárhagslegur. Við það að skipta yfir á hreina orku mun losun vegna fólksbílaflota Akureyringa dragast saman sem nemur um 40.000 tonnum af CO2 á hverju ári. Reyndar er líka fjárhagsleg tenging við losunina því í Evrópu er komið kerfi með viðskipti á kolefniskvóta en samkvæmt því nálgast verðið nú 80 evrur á tonnið. Það má því segja að það gefi ágæta vísbendingu um hvers virði það er talið vera í dag að draga úr þessari losun. Ef við gefum okkur að evra kosti 145 krónur er virði 40.000 tonna losunar 482 milljónir.

Önnur áhrif af rafbílavæðingu og breyttum ferðavenjum í samgöngum sem mætti telja upp eru minni hávaði, minni loftmengun og meira öryggi.

Hver er innanbæjarsamgönguþörfin?

Margt skýrir þennan stóra fólksbílaflota á Akureyri og þessa miklu notkun innanbæjar; samgöngur milli landshluta, veðrið, brekkurnar, ófullnægjandi stígakerfi, lágt þjónustustig almenningssamgangna, hátt þjónustustig fyrir fólksbílinn og gott aðgengi að bílastæðum um allan bæ. Samkvæmt nýlegum samgöngukönnunum eru um 57% af ferðum nemenda í MA og VMA á Akureyri til og frá skóla á einkabíl og á veturna er 81% ferða Akureyringa til og frá vinnu á einkabíl.

Rafbíll hefur marga kosti umfram bensínbíl en er þó versta innanbæjarsamgönguorkuskiptalausnin enda er hann með stærra framleiðslukolefnisspor en bensínbíll, er dýrasta samgöngutækið og þarf sama pláss í bæjarlandinu og bensínbíll.

Hjá Vistorku höfum við sett upp vefsíðu sem við köllum SKREF og snýst um hvernig við getum dregið úr notkun á fólksbílnum með breyttum ferðavenjum. Auknar hjólreiðar, ganga og almenningssamgöngur eru auðveldasta leiðin til að minnka eldsneytisnotkun og útblástur frá samgöngum. Slíkt stuðlar einnig að aukinni hreyfingu og bættri heilsu. Einfaldast er að minnka óþarfa bílferðir þar sem vegalengdir eru viðráðanlegar. Allt of margir ferðast um í einkabílum stuttar vegalengdir sem auðvelt væri að dekka með göngu eða hjólreiðum. Þessu þarf að breyta. Ein hugarfarsleg hindrun er annars vegar ofmat á ferðatíma göngu og hjólreiða og hins vegar vanmat á ferðatíma bílferða. KORTER er tæknilausn Vistorku og Orkuseturs utan um alþjóðlega hugmyndafræði sem snýst um að allir íbúar geti fullnægt flestum þörfum sínum í stuttri göngu- eða hjólaferð frá heimili sínu.

Á skjáskotinu hér fyrir neðan er lagt upp frá Menntaskólanum á Akureyri og áfangastaður er Menningarhúsið Hof. Eins og sést tekur það aðeins um 12 mínútur að ganga úr MA í Hof og innan við 5 mínútur að hjóla.

Vefsíður sem tengjast umfjölluninni:

https://www.stjornarradid.is/efst-a-baugi/frettir/stok-frett/2022/03/08/Akvardanir-um-orkuframleidslu-taki-mid-af-loftslagsmarkmidum-Islands/

Orkuþörf: Forsendur og breytur - Samorka

https://orkustofnun.is/gogn/Talnaefni/OS-2021-T006-01.pdf

https://www.fib.is/is/billinn/rekstrarkostnadur

https://www.fib.is/static/files/rekstrarkostnadur/rekstur-bifreida-2021-pdf.pdf

https://www.islandsbanki.is/is/frett/ad-leggja-bilnum-a-lifeyrisaldri

https://hagstofa.is/utgafur/frettasafn/laun-og-tekjur/laun-2020/

https://bifreidatolur.samgongustofa.is/#tolfraedi

https://ember-climate.org/data/carbon-price-viewer/