Dregið úr matarsóun og stutt við þá sem minnst hafa
Dregið úr matarsóun og stutt við þá sem minnst hafa
Vistorka, Akureyrarbær og Hjálpræðisherinn eru að hrinda af stað verkefni þar sem veitingaaðilar eru hvattir til að gefa þann mat sem verður eftir við stórar veislur og aðra slíka starfsemi. Markmiðið er að draga úr matarsóun og um leið styðja þau sem þurfa á mataraðstoð að halda.
Í nýju húsnæði Hjálpræðishersins við Hrísalund verður komið upp geymsluaðstöðu fyrir matvæli sem veitingaaðilar fá aðgang að og geta skilað mat eftir vinnudag eða veisluhöld. Sjálfboðaliðar taka við matnum, setja í viðeigandi umbúðir, merkja, auglýsa og deila svo til þeirra sem þurfa á að halda.
Þetta er sannkallað samfélagsverkefni með aðkomu fólks úr ýmsum áttum. Terra, Molta og Geimstofan hafa til dæmis samþykkt að styðja við framtakið, annars vegar með því að koma matarafgöngum sem ekki tekst að útdeila rétta leið í jarðgerð og hins vegar með hönnun og prentun auglýsinga.
Til stendur að senda leiðbeiningar um þessa mataraðstoð á alla veitingastaði, veisluþjónustu, kaffihús og bakarí á næstu vikum.
Nú þegar er tekið á móti matargjöfum sem mega fara í frysti en gert er ráð fyrir því að aðstaða Hjálpræðishersins verði tilbúin um miðjan desember. Tengiliður verkefnisins er bergrun@herinn.is en þeir sem hafa áhuga á að styrkja verkefnið eða koma að því með einum eða öðrum hætti geta einnig haft samband við eyrungigja@vistorka.is.
Fréttin birtist fyrst á akureyri.is