Fara í efni

Sparaðu milljón á ári með því að fækka bílum heimilisins

Sparaðu milljón á ári með því að fækka bílum heimilisins

Verðlagseftirlit ASÍ birti grein í VINNAN – tímarit Alþýðusambands Íslands þar sem farið er vel yfir þann möguleika að fækka bílum á heimilinu eða jafnvel sleppa því alfarið að reka bíl.

„Samgöngur eru næststærsti útgjaldaliður íslenskra heimila á eftir húsnæðiskostnaði. Ýmsar leiðir eru þó til að draga úr samgöngukostnaði og ferðast með öðrum hætti en með bíl. Með tilkomu rafskutlna og rafhjóla, fleiri og betri hjólastíga og deilibílaleiga, auk hefðbundinna bílaleiga, er það orðinn mun raunhæfari kostur að vera án bíls en áður eða fækka bílum á heimilinu.“

Vissulega hafa margir þættir áhrif á hversu auðvelt það er fyrir fjölskyldur eða einstaklinga að nota ekki einkabílinn í samgöngum. Þarna leikur staðsetning heimilisins stórt hlutverk; er stutt í alla þjónustu eða eru vegalengdirnar sem þarf að fara til að sækja þjónustuna mjög langar? Í minni bæjum eru vegalengdirnar oftar en ekki styttri en þar getur einnig vantað upp á almenningssamgöngur. Í stærri bæjum, þar sem vegalengdirnar eru meiri, er oftar en ekki betri þjónusta í almenningssamgöngum og því fleiri raunhæfir kostir sem hægt er að nýta í stað þess að notast við einkabílinn.

„Það er þó vel þess virði að kanna möguleikann á því að blanda saman samgöngumátum í stað þess að keyra um á bíl og lækka þannig samgöngukostnað og draga úr mengun í leiðinni.“

Kostirnir við að ferðast með öðrum samgöngumátum en bíl felast ekki bara í fjárhagslegum sparnaði heldur er sú hreyfing sem viðkomandi fær við að ganga eða hjóla til og á frá vinnu mikill ávinningur fyrir heilsuna. Með þessum hætti er hvort heldur er hægt að auka við hreyfingu sína yfir daginn eða nýta þessa hreyfingu í stað þess að fara í líkamsrækt fyrir eða eftir vinnu og fá þannig meiri tíma í annað. Annar augljós ávinningur af því að nota ekki bílinn er að ekki þarf að skafa hann á veturna og eins sleppur maður við annað viðhald eins og þrif og dekkjaskipti, svo ekki sé talað um annan og meiri viðhaldskostnað.

Mörgum getur þótt það stórt skref að ferðast öðruvísi en á bíl og þá skiptir máli að setja sér raunhæf markmið og „leyfa“ sér til dæmis að taka leigubíl þegar þess er þörf. Þeir sem ætla að stunda alfarið bíllausan lífsstíl þurfa mögulega að nýta fleiri ferðamáta en þeir sem ætla sér aðeins að fækka bílum á heimilinu. Ferðalengd, veður og tilgangur ferðar geta kallað á ólíka ferðamáta og er því ágætt að gera ráð fyrir ákveðnum sveigjanleika og fjölbreytni í ferðamátum.“

ASÍ hefur tekið saman kostnað við að reka bíl og sett upp þrjú dæmi þar sem einstaklingur eða fjölskylda fækkar um einn bíl eða sleppir því alfarið að reka bíl. Niðurstöðurnar má sjá á meðfylgjandi myndum.

 

Mikilvægt er að skoða hvaða samgöngumátar eru í boði í þinni heimabyggð. Hugsa þarf um árið í heild. Erfiðara getur verið að vera bíllaus á ákveðnum tímabilum, sérstaklega til að byrja með, áður en færri bílar á heimili eða bíllaus lífsstíll kemst í vana.

Á Akureyri er frítt í strætó og því enn meiri sparnaður fólginn í því en annars staðar að nota almenningssamgöngur, en árskort í strætó á höfuðborgarsvæðinu kosta 80.000 kr. fyrir fullorðna, 25.000 kr. fyrir 12–17 ára en ekkert fyrir börn sem eru 11 ára og yngri. Sá peningur sem sparast við að fækka bílum eða sleppa því að reka bíl gefur svigrúm til að nýta sér aðra kosti þegar þess er þörf, eins og bílaleigubíl eða leigubíl. Ef ferðamátinn er að mestu leyti hjól eða rafskúta hefur það jákvæð áhrif á bæði andlega og líkamlega heilsu.

Forsendur til að breyta ferðavenjum eru ólíkar frá einni fjölskyldu til annarrar og aldur fjölskyldumeðlima, staðsetning heimilisins og staðsetning vinnustaðarins getur sett fólki skorður. Kostirnir geta þó verið meiri. Til að mynda hefur launafólk rétt á að semja við sinn launagreiðanda um allt að 8.500 króna skattfrjálsa greiðslu ef það nýtir almenningsamgöngur eða aðra vistvæna samgöngumáta þegar það fer til og frá vinnu eða þegar ferðast er í þágu launagreiðanda.

Hagnýt atriði:

Á Hjólreiðar.is er að finna ýmis góð ráð og tengla á gagnlegar upplýsingar varðandi hjólreiðar. Þar er hægt að fara yfir hvað það er sem heldur aftur að þér í að skipta um gír og breyta samgönguvenjum þínum. Til dæmis er mikilvægt er að hjóla rólega til að byrja með, sértaklega þegar hjólað er til vinnu. Þeir sem eru vanir að hjóla svitna ekkert frekar þegar hjólað er til vinnu heldur en ef þeir hefðu farið í göngutúr. Gott er að undirbúa sig vel og skoða hvaða leiðir henta best þegar hjólað er á milli staða, bæði hvað varðar vegalengdina og ástand hjólastíga. Þegar fram líða stundir mun líkamsástandið batna og auðveldara verður að hjóla á milli staða. Leiðin virkar oft lengri en hún er; t.a.m. er hægt að hjóla um alla Akureyri og hálfa höfuðborgina á aðeins 15 mínútum.

Samgönguhjólreiðar

Á vefnum map.bikecitizent.net er hægt að finna bestu hjólaleiðina fyrir þig í höfuðborginni.

Hjólaleiðir í Reykjavík

Einnig er hægt að nota vefinn Korter til að finna hjólaleiðir og hvað þú getur farið langa vegalengd á ákveðnum tíma á hjóli eða gangandi. Þessi vefur hentar bæði fyrir höfuðborgarsvæðið og landsbyggðina. Þar er hægt að panta útprentað kort út frá þínu heimilisfangi til að setja í ramma svo hægt sé að hafa það heima fyrir alla fjölskylduna til að líta á og skoða hvert ferðinni er heitið og hvað það muni taka langan tíma.

Korter

Vefurinn Hjólafærni býður upp á svipaða þjónustu en þar er að finna korterskort eða 6 mínútna kort af nokkrum sveitarfélögum á landinu. Þessi kort eru frá Samsýn og af vef ja.is.

Korterskort

Á heimasíðu Skattsins má sjá reglur um hlunnindi launþega og styrki. Þarna má nefna samgöngustyrki eða samgöngugreiðslur sem launagreiðandi greiðir launamanni vegna ferða hans til og frá vinnu. Samningur þessi á við um nýtingu launamanns á almenningssamgöngum eða vistvænum samgöngumátum og óskattskyldan styrk sem hann fær vegna þess.

Samgöngustyrkur

Á Hjólavottun.is geta atvinnurekendur sem vilja koma á fót góðri hjólamenningu og bæta hjólreiðaaðbúnað fyrir starfsfólk sitt, gesti og viðskiptavini sótt um hjólavottun. Fjórar vottanir eru í boði og geta fyrirtækin unnið sig upp í hæstu vottun. Fyrst er vottun fyrir það eitt að fyrirtækið hefur lagt af stað í þá vegferð að bæta og hlúa að hjólreiðamenningu á sínum vinnustað. Eftir því sem betur gengur getur fyrirtækið sótt um stærri vottun þar sem markmiðið er að fá platinuvottun, en hún er fyrir þá bestu. Þá þurfa starfsmenn og stjórn fyrirtækisins að hafa unnið saman að því að útbúa vinnustaðinn svo vel að allir sjái að besta leið starfsmanna og gesta til að komast á hann og aftur frá honum er að nýta sér almenningssamgöngur eða að hjóla eða ganga.

Hjólavottun

Á vefsíðu Stjórnarráðs Íslands má finna upplýsingar um niðurfellingu á virðisaukaskatti af rafreiðhjólum og öðrum vistvænum ferðamátum. Þessi niðurfelling var lögð til í frumvarpi fjármálaráðherra um ívilnanir vegna vistvænna samgangna árið 2019.

Niðurfelling á viðrðisaukaskatti

Það er því að mörgu að hyggja þegar skoðaðar eru breyttar ferðavenjur og mikill ávinningur fyrir bæði einstaklinga og fjölskyldur að hefja þá vegferð að auka hlut vistvænna kosta hvað varðar samgöngur heimilisins.

 

Grein úr Vinnan tímarit ASI