Viðtal á Rás 2 - Meira af bílum og samgöngum á Akureyri
Viðtal á Rás 2 - Meira af bílum og samgöngum á Akureyri
Síðdegisútvarp Rásar 2 var á umhverfisvænum nótum í gær, þriðjudaginn 3. september.
Í upphafi þáttarins var rætt við Þórdísi Sigurðardóttir íbúa Neskaupsstaðar, en hún ásamt manni sínum Jeff Clemmensen hefur verið að setja sólarsellur á húsþakið hjá sér til einkanota.
Einnig var fjallað var um verkefnið - Göngum í skólann 2024 - en það verður sett hátíðlega miðvikudaginn 4. september í Brekkuskóla á Akureyri. Þetta er í átjánda sinn sem verkefnið er sett hér á landi.
Á 16 mínútu þáttarins hefst viðtal við framkvæmdastjóra Vistorku um nýjustu greinina á vef okkar sem fjallar um bifreiðar og samgöngur á Akureyri.
Tengill á þátt RÚV: Síðdegisútvarpið | RÚV Útvarp (ruv.is)
Tengill á grein Vistorku: Bifreiðar og ferðavenjur á Akureyri | Vistorka
Akureyri.net gerði einnig frétt upp úr greininni og deildi á Facebooksíðu sinni: Akureyri.net | Facebook
Eins og þar má sjá og víðar þar sem bifreiðar og samgöngur eru til umræðu kemur oft upp viðhorfið að mikið af þeim bílum sem eru á skrá séu í rekstri ökutækjaleiga, standi að mestu óhreyfðir eða jafnvel aldrei notaðir. Sem dæmi þá er m.a. ástæðan fyrir þessari umræðu eins og kemur fram í greininni að ökutæki skráð á Akureyri en eru ekki á númerum eru 5.681 af 34.298 ökutækjum. Af þeirri heildartölu eru hjá bílaleigum á Akureyri skráð 7.579 ökutæki eða 22% af heildarflotanum. Þá er eðlilegt að spurt sé, hversu mikið er bíll notaður, svona almennt?
Notkun bifreiða og slys í umferðinni
Dæmigerður fólksbíll í Evrópu stendur óhreyfður 92% af tímanum. 20% af aksturstímanum fer í að finna stæði og leggja. Fólksbílar eru flestir með fimm sæti en flytja að meðaltali 1,5 farþega hverju sinni. 86% af orkunni sem bíllinn notar kemst aldrei út í dekkin og lang mest af orkunni fer í að hreyfa bílinn en ekki fólkið.
Það vill oft gleymast í umræðunni hversu margir slasast alvarlega í umferðinni. Samkvæmt upplýsingunum sem koma fram á myndinni er áætlað að einstaklingar með varanlega örorku eftir umferðarslys séu fjórum sinnum fleiri en þeir sem látast. Samkvæmt vef Samgöngustofu létust 112 í umferðinni á Íslandi á síðustu 10 árum og 1.896 slösuðust alvarlega. Umferðarslys | Samgöngustofa (samgongustofa.is)
Eins og sést á kortinu af Akureyri hér fyrir neðan þá eru 6,5 km frá Byko í gegnum bæinn og að flugvellinum. Ef við gefum okkur að þessi leið sé ekin á meðalhraðanum 40 km/klst þá tekur það um 1 klst. að aka þessa leið 6 sinnum. Akstur upp á 1 klst. á dag þýðir að bíllinn er nýttur 4% af deginum. Akureyri er lítill bær sem vissulega stefnir á að verða að borg en hér tekur undir 15 mínútur að hjóla enda á milli, þrátt fyrir það eru hér í rúmlega 20.000 manna samfélagi um 30.000 bifreiðar og önnur ökutæki sem standa meira og minna allan daginn óhreyfð með öllum þeim fjárfestingakostnaði og innviðaónýtingu sem það krefst.
Hver borgar?
Því miður gengur mjög illa að koma þessari umræða á þann stað sem hún þarf að vera, við viljum nefnilega öll það sama. Það er enginn að ætlast til að þess að allir lifi bíllausum lífsstíl, hefur aldrei verið sagt og enginn að berjast fyrir því. Það sem er verið að reyna að draga fram er; plássið, kostnaðurinn, hættan, mengunin og hávaðinn sem mikil bílaumferð hefur í för með sér.
Ef við skiptum yfir í innlenda orku í samgöngum þá spara íbúar og bæjarsjóður stórfé (milljarða á hverju ári), hávaðinn minnkar og loftið verður betra. Og ef okkur tekst að draga úr umferð bifreiða verða allar samgöngur liprari, öruggari, ódýrari og hreinni. Hvað af þessu er ekki 100% sátt um meðal bæjarbúa?