Vistorka ehf. stofnuð
Vistorka ehf. stofnuð
Norðurorka hf. stofnar hlutafélagið Vistorku ehf.
Undanfarin ár hefur verið stofnað til þó nokkurra verkefna í endurvinnslu á Akureyri. Má þar nefna Moltu, sem er jarðgerðarstöð, Orkey ehf., sem endurvinnur mör og úrgangsfeiti og -olíur í lífdísel, metanframleiðslu úr hauggasi frá gömlu sorphaugunum á Glerárdal og GPO ehf., sem framleiðir olíu úr úrgangs plasti. Þá ber einnig að nefna að íbúar og fyrirtæki hafa náð miklum og góðum árangri í flokkun sorps á Akureyri og Akureyrarbær hefur gert samning við Gámaþjónustu Norðurlands um rekstur flokkunarstöðvar. Þannig hefur náðst góður árangur í endurvinnslu, sem sannarlega er til fyrirmyndar.
Þá hefur töluverð gagnasöfnun farið fram á undanförnum árum á vegum AFE er snýr að möguleikum á frekari nýtingu á svæðisbundnu hráefni til eldsneytisframleiðslu. Nú hefur verið ákveðið að taka frekari skref í þessa átt og stofna félagið Vistorku.
Tilgangur félagsins er að kanna frekari möguleika á framleiðslu umhverfisvæns eldsneytis sem nýtir innlent hráefni. Markmiðið er að meta hvort á Eyjafjarðarsvæðinu sé hægt á sjálfbæran hátt að nýta hráefni sem til fellur til framleiðslu á umhverfisvænu eldsneyti. Einnig mun félagið kanna mögulega nýtingu á þeim hliðarafurðum sem framleiðslunni tengjast og með hvaða hætti nýting og samspil þeirra geti stutt við meginmarkmiðin. Í þessu samhengi er einnig mikilvægt að meta áhrif umhverfisvænnar eldsneytisframleiðslu á umhverfisáætlanir, kolefnisbúskap og ímynd fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga á svæðinu, en slíkt mat verður einnig hluti af verkefnum félagsins.
Ljóst er að ýmis tækifæri eru fyrir almenning, fyrirtæki og sveitarfélög að styðja við og vera beinir þátttakendur í þróun til enn vistvænna samfélags. Reynslan hingað til gefur fullt tilefni til bjartsýni í þeim efnum. Með frekari þróun og virkri þátttöku er einnig hægt að styðja við og efla þau fyrirtæki sem fyrir eru í þessum geira hér á Norðurlandi.