Vistorka og SSNE hljóta styrk frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu
Vistorka og SSNE hljóta styrk frá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu
Líforkuver
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið úthlutaði nýlega styrkjum til að efla hringrásarhagkerfið á Íslandi. Styrkveitingunum er ætlað að styðja við nauðsynlega uppbyggingu innviða hringrásarhagkerfisins á Íslandi og nýsköpun og þróun sem stuðlað getur að innleiðingu þess hérlendis. Frekari upplýsingar um hringrásarhagkerfið má finna í kynningu ráðuneytisins og svo ítarlegar upplýsingar í stefnu ráðherra í úrgangsmálum sem var gefin út í júní 2021.
SSNE í samstarfi við Vistorku fékk úthlutað úr sjóðnum styrk að upphæð 5.000.000 króna sem nýttar verða í gerð hagkvæmnimats Líforkuvers sem ætlunin er að byggja á Norðurlandi og snýst um samþættingu á hátækniúrgangsvinnslu á lífrænum úrgangi.
Vistorka hefur undanfarin ár unnið að undirbúning að Líforkuveri en áætlað er að um 15.000 tonn af lífrænum úrgangi falli til á NA-landi á hverju ári, það er fyrir utan mykju og gróðurúrgang. Hugmyndin gengur út á að samþætta vinnsluferla og taka á móti öllum flokkum lífræns úrgangs á einum stað; sláturúrgangi, matarleifum, matarolíu, fitu, garðaúrgangi, timbri, pappa o.s.frv.. Líforkuverið tryggir ekki bara betri meðhöndlun á lífrænum úrgangi en t.a.m. urðun heldur verða einnig til verðmætar afurðir eins og metan, lífdísill, molta og áburður.
Vegna smæðar samfélagsins á Norðurlandi og stærðarhagkvæmni flókinna vinnsluferla er hvert og eitt ferli ekki sjálfbær rekstrareining. Hugmyndin gengur því út á að samþætta marga ferla saman tæknilega sem og að samnýta húsnæði, mannskap og ýmsar vélar. Sambærilega verksmiðju er ekki að finna svo vitað sé og því um mjög áhugavert þróunarverkefni að ræða.
Minni matarsóun – Matarleifarnar með heim
Vistorka fékk einnig úr sömu úthlutun nýsköpunarstyrk að upphæð 1.000.000 króna fyrir verkefnið Leifur Arnar – minni matarsóun. Verkefnið snýst um að auka vitund og grípa til aðgerða vegna loftslags- og umhverfisáhrifa matarsóunar og notkunar umbúða fyrir tilbúin matvæli.
Markmið verkefnisins er tvíþætt: 1) Að minnka matarsóun á veitingastöðum með því að koma upp umbúðakerfinu “Leifur Arnar” þ.e. að fólk geti tekið með sér matar-Leif-Arnar í samræmdum umbúðum sem síðan má setja í Moltugerð. 2) Að koma upp hvata- og vottunarkerfi sem tryggir að veitingastaðir vinni samkvæmt loftslagsþrennunni með því að:
- Minnka matarsóun með Leif Arnar kerfinu.
- Skila allri notaðri steikingarolíu í lífdísilgerð (Orkey).
- Flokka allan lífrænn úrgang og skila í jarðgerð (Molta)