Fara í efni

Almenningssamgöngur – greining á klúðri

Sigurður Ingi Friðleifsson
skrifar 14. júlí 2021

Almenningssamgöngur – greining á klúðri

Árið 2012 var undirritað samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um 10 ára tilraunaverkefni til eflingar almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu. Meginmarkmið samkomulagsins var að tvöfalda a.m.k. hlutdeild almenningssamgangna í öllum ferðum sem farnar eru á höfuðborgarsvæðinu og sporna með þeim hætti við tilsvarandi aukningu eða draga úr notkun einkabílsins. Í samkomulaginu er gert ráð fyrir árlegu framlagi úr ríkissjóði til verkefnisins að upphæð 900 milljónir króna á verðlagi ársins 2012 eða um níu milljarðar í heildina.

Gagnrýnendur hafa bent á að markmið um tvöföldun í hlutdeild ferða hafi mistekist og að þessum tæpu níu milljörðum hefði betur verið varið í tvöföldun vega og mislæg gatnamót.

Ef eina viðmiðið um velgengni eða klúður tilraunaverkefna er kalt mat á djörfum upphafsmarkmiðum, þá er auðvelt að falla í þá gryfju að taka undir gagnrýnina og dæma verkefnið sem mistök. Ef menn leyfa sér hins vegar að rýna í gögnin sem finna má í skýrslu Mannvits, þá kemur ýmislegt fróðlegt í ljós, t.d. eftirfarandi;

  • Fjöldi farþega Strætó á hvern íbúa á höfuðborgarsvæðinu jókst um 35% frá 2011 til 2019 en bílaumferð á hvern íbúa um 26%.
  • Fastnotendur Strætó voru 17.525 árið 2019, sem er 250% aukning frá 2011 þegar þeir voru 5.043.
  • Losun gróðurhúsalofttegunda frá umferð jókst um 19,6% á hvern íbúa á tímabilinu 2011 til 2017. Losun gróðurhúsalofttegunda á hvern ekinn km vagnaflota Strætó dróst saman um 19,7% frá 2011 til 2017.

Sviðsmyndin sem oft gleymist

Þegar verið er að meta árangur aðgerða aftur í tímann gleymist mjög oft að meta hversu mikið verri staðan hefði orðið ef aðgerðir hefðu ekki komið til. Orkusetur tók t.d. virkan þátt í verkefni fyrir meira en áratug síðan sem sneri að skattabreytingum til að umbuna orkunýtnum bifreiðum umfram eyðslufreka. Á þeim tíma var lítið um vænlega rafbíla og mikilvægt að auka eldsneytisnýtni nýrra bifreiða til að draga úr olíunotkun í samgöngum.

Þrátt fyrir þessar aðgerðir jókst olíunotkun í samgöngum. Auðvelt hefði því verið að afgreiða þessar skattabreytingar sem klúður en málið var að þær urðu til þess að olíunotkun bara jókst í staðinn fyrir að stóraukast. Sem sagt komu aðgerðirnar í veg fyrir enn verri niðurstöðu.

Auðveldustu greiningar á verkefnum eru af eða á greiningar, þ.e. minnkaði eitthvað eða jókst, og að draga svo einfaldar ályktanir út frá því. Almenningssamgönguverkefnið hefur ekki uppfyllt fullkomlega þau markmið sem sett voru en það hefur sannarlega dregið úr enn verra ástandi. Enn verri sviðsmyndin fær með öðrum orðum allt of litla athygli. Ef almenningssamgöngur hefðu ekki fengið þessa meðgjöf væru líklega enn fleiri ferðir farnar á einkabílum með enn meiri mengun.

Án þessa verkefnis hefði þó þjónusta við þá sem nota hana verið enn verri.

Bætt þjónusta fyrir suma

Jarðgöngum á Íslandi er jafnan fagnað með pompi og prakt enda stórbæta þau jafnan þjónustu og lífsgæði íbúa og gesta á svæðinu. Héðinsfjarðargöng voru opnuð árið 2010 og voru bylting fyrir þá tvö þúsund íbúa sem þar búa.

Þessi bætta samgönguþjónusta kostaði um 20 milljarða á verðlagi þessa árs og var vel þess virði. Hvernig fá menn út að níu milljarða innspýting til að bæta samgönguþjónustu og auka lífsgæði 17.525 fastnotenda Strætó sé ekki þess virði?

 

Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu