Ertu á leiðinni í fyrsta rafbílaferðalagið?
Ertu á leiðinni í fyrsta rafbílaferðalagið?
Ferðalög á rafbílum hafa aldrei verið auðveldari og sífellt fjölgar nýjum hraðhleðslustöðvum sem geta hlaðið bílinn nánast til fulls á 10-40 mínútum. Það þarf þó að hafa nokkra hluti í huga áður en lagt er af stað í langferðalag á rafbílnum.
Þú þarft t.d. að huga sérstaklega að atriðum eins og veðri, færð því þau hafa meiri áhrif á ferðalög rafbíla, en einnig staðsetningu hleðslustöðva og aðgengi að þeim, hleðslugetu bílsins, afgreiðsluhraða hleðslustöðvanna og muna eftir að taka þína eigin hleðslusnúru með. Á vefsíðunni plugshare.com má finna mjög gott yfirlit yfir flestar hleðslustöðvar sem eru opnar almenningi.
Hleðslustoppið er ekki glataður tími
Mjög misjafnt er hversu langt rafbílar draga á fullri hleðslu. Hleðslugetan (hversu hratt og mikið er hægt að hlaða þá) og afköst hleðslustöðva eru sömuleiðis mismunandi. Því er mikilvægt að undirbúa fyrsta rafbílaferðalagið vel. Margir miða við hvort hægt sé að komast á milli Reykjavíkur og Akureyrar án þess að hlaða. Sumir rafbílar komast á milli þessara staða án aukahleðslu en aðra rafbíla þarf að hlaða á leiðinni. Mjög mörgum dugar eitt hleðslustopp. Ef þú kemst í öfluga hleðslustöð sem getur gefið 150 kWst/klst eða meira er algengt að hleðslustoppið taki 20–40 mínútur. Hleðslustoppið er ekki glataður tími; hægt er að nýta stoppið til að fá sér hressingu, fara á snyrtinguna, kíkja á skilaboð í símanum eða einfaldlega loka augunum og slaka á.
Mörg atriði hafa áhrif á hversu hratt gengur á orkuna á rafhlöðunni, svo sem hraði, hröðun, þyngd, notkun á miðstöð og veðurfar. Eðli málsins samkvæmt eyðir rafbíllinn t.d. meiru ef hann dregur hjólhýsi eða tjaldvagn og ef ekið er á móti vindi. Það er því að mörgu að hyggja en það getur líka verið hluti af jákvæðri upplifun að prófa sig áfram og tileinka sér nýja tækni og ferðahegðun.
Sú staða getur vissulega komið upp að það sé biðröð við hleðslustöð og óvissan um hvort svo sé getur verið dálítill stressvaldur. En þá er líka hægt að hugsa sem svo að ferðalög þurfi ekki að felast í að æða á milli staða á sem stystum tíma. Getur ekki verið betra fyrir alla að fara aðeins hægar yfir, nota tímann sem það tekur að hlaða til að gera eitthvað skemmtilegt og jafnvel skoða nýja staði? Oft er sagt að það sé ekki áfangastaðurinn sem skipti máli, heldur ferðalagið.
Samfélag rafbílaeigenda - reynslusögur
Það eru ýmsir spjallhópar um rafbíla á netinu, t.d. á Facebook, þar sem skipst er á upplýsingum og góðum ráðum. Sem dæmi þá setti eigandi rafbíls inn eftirfarandi upplýsingar vorið 2021 inn í Facebook-hópinn; Tesla – eigendur og áhugafólk. Hann ók Tesla Model X long range plus 350 km um Suðurlandið til Reykjavíkur með hjólhýsi sem var 2,5 metrar á breidd og um 1.600-1.700 kg. Meðalhiti var 4-5 gráður. Stundum var meðvindur og stundum mótvindur. Í bílnum voru þrír farþegar, auk ökumanns, hunds og farangurs. Eigandinn hlóð bílinn í samtals 130 mínútur í fjórum stoppum en telur að hann hefði komist af með tvö stopp. Hans mat samkvæmt færslunni er að um helmingurinn af orkunni hafi farið í að draga hjólhýsið.
Hleðslustöðvum fjölgar hratt
Þótt langferðalög á rafbíl kalli á aðeins meiri pælingar er staðreyndin sú að þau verða sífellt einfaldari. Hraðhleðslustöðvum fjölgar hratt um allt land. Bara á árinu 2021 er gert ráð fyrir að yfir 40 stöðvar verði komnar í notkun sem geta gefið 150 kWst/klst eða meira. Minni hleðslustöðvum á opnum svæðum í sveitarfélögum og við gististaði fjölgar einnig hratt og vinnustaðir eru á fullu við að setja upp hleðslustöðvar fyrir starfsmenn. Vonandi helst þessi þróun vel í hendur, þ.e. fjölgun rafbíla og fjölgun hleðslustöðva.
Miklu ódýrara að keyra rafbíl
Samkvæmt vef Orkuseturs kostar ein kílóvattstund [kWst] í kringum 16 krónur. Ef rafbíl er ekið 1.000 km á mánuði og hann eyðir að meðaltali um 20 kWst/100 km má með nægjanlegri nákvæmni segja að hann noti 200 kWst á mánuði til að komast þessa 1.000 km. Það kostar þá um 3.200 krónur að reka þennan rafbíl á mánuði miðað við að hann sé alltaf hlaðinn á heimilinu, eða 38.400 kr. á ári.
Þegar kemur að ferðalaginu á milli Reykjavíkur og Akureyrar, sem er um 400 km, gerum við ráð fyrir að kaupa þurfi á leiðinni 20 kWst í hraðhleðslu og síðan að hlaðið sé á heimarafmagni á endastöð. Samkvæmt verðskrá Orku náttúrunnar kostar hver kWst hjá þeim í 150 kW DC hraðhleðslu 65 krónur. Í töflu sem fylgirmeð greininni er sýndur samanburður á ferðakostnaði og losun CO2 á þremur mismunandi fólksbílum.
Sem dæmi um þjóðhagslegan hag af orkuskiptum í samgöngum þá eru nú þegar um 7.000 hreinir rafbílar skráðir á Íslandi. Miðað við forsendur hér fyrir ofan er hagur þjóðarbúsins af þeim flota um 300 milljónir króna á ári vegna minni olíukaupa. Það er því til mikils að vinna að flýta orkuskiptum eins og kostur er. En það er ekki bara orkan sem er ódýrari, viðhaldskostnaður er líka minni þar sem rafbíll er mun einfaldara tæki en bíll sem gengur á jarðleifaeldsneyti.
Til hamingju við öll
Með því að aka rafbíl ertu að spara verulega eldsneytiskostnað og leggja þitt af mörkum til að vernda umhverfið. Það kemst fljótt upp í vana að gera ráð fyrir hleðslustoppum og byrjunarörðugleikar verða fljótt skemmtilegar sögur sem við segum barnabörnunum.
Greinin birtist upphaflega á vef Landsbanka Íslands 7. júní 2021