Græn innspýting
Græn innspýting
Hagvöxtur er greinilega á niðurleið og atvinnuleysi á uppleið. Ljóst er að íslenska efnahagsundrið hefur kólnað og nú kalla fjármálaspekingar á súrefni til að örva hagkerfið. Mínar tillögur um innspýtingu eru auðvitað allar í grænni kantinum eins og við er að búast. Græn stefna er oft ranglega kennd við samdrátt og íþyngjandi skatta. Staðreyndin er að græn uppbygging kallar oft á talsverðar framkvæmdir, umsvif og atvinnusköpun. Slíkar fjárfestingar eru svo oftast efnahagslega sjálfbærar til lengri tíma, vegna aukinnar verðmætasköpunar og/eða kostnaðarlækkunar.
Tökum nokkur dæmi um grænar fjárfestingar sem hið opinbera hefur komið að með einum eða öðrum hætti undanfarið. Rafvæðing Herjólfs, hitaveita á Höfn og víðar, jarðstrengur á Kili og Þórsmörk, sjóvarmadæla í Vestmannaeyjum og uppsetning hraðhleðslustöðva. Allar þessar framkvæmdir hafa skapað veltu og umsvif í hagkerfinu og stuðla að skynsamari nýtingu auðlinda. Í sama hagkerfi þá tengjast hlutirnir nefnilega saman í heild. Hitaveitan á Höfn og sjóvarmadælan í Vestmannaeyjum munu spara verðmæta raforku sem einmitt má nýta á Herjólf, hraðhleðslustöðvarnar eða til að taka út gas- og olíukyndingu í Þórsmörk og á Kili.
Það má auðveldlega gefa í, til að skerpa á íslensku efnahagsvélinni. Hið opinbera, bæði ríki og sveitarfélög, geta haldið áfram á þessari braut og helst með meiri krafti, sérstaklega nú þegar kallað er eftir efnahagslegu súrefni. Það eru fjölmörg verkefni í boði:
Uppbygging almenningssamgangna og hjólreiðainnviða
Fjárfestingar í almenningssamgöngum og hjólreiðum eru efnahagslega skynsamlegri en margir halda. Slíkar framkvæmdir skapa ekki bara vinnu og veltu á uppbyggingartíma, heldur leysa líka úr læðingi aukna getu einstaklinga til neyslu og fjárfestinga. Alltof mikill hluti ráðstöfunartekna á Íslandi fer í erlendan kostnað í formi fólksbíla, olíu, dekkja og varahluta. Með aukinni hlutdeild almenningssamgangna og hjólreiða verður stærri hluti ráðstöfunartekna hjá fjölskyldum landsins tiltækur í innlenda afþreyingu og fjárfestingar.
Varmadælur
Auka má stuðning við varmadæluvæðingu hjá sveitarfélögum á rafhituðum svæðum líkt og Orkusjóður hefur gert á undanförnum árum. Einnig mætti styðja betur við varmadæluvæðingu fyrirtækja á köldum svæðum og bæta þannig samkeppnistöðu þeirra og lækka kostnað. Varmadæluvæðing skapar vinnu og veltu, sparar raforku og lækkar kostnað notenda.
Rafvæðing ferja
Halda þarf áfram fjárfestingum við rafvæðingu ferja á Íslandi. Erfiðasta verkefninu, Herjólfi, er lokið og nú væri hægt að koma á fót svipuðum verkefnum varðandi Hríseyjarferjuna og Baldur. Verkefnin skapa vinnu og veltu, nýta innlenda raforku (sem er m.a. tiltæk vegna varmadælu uppsetninga) í stað innfluttrar olíu og minnka losun gróðurhúsalofttegunda.
Lífmassaver og plastendurvinnsla
Ríki og sveitarfélög eiga að fjárfesta í uppbyggingu á tæknilausnum varðandi úrgang. Fyrir norðan er t.d. á teikniborðinu lífmassaver sem framleitt getur verðmæti úr lífrænum úrgangi í stað þess að senda hann til urðunar. Verkefnið skapar vinnu og veltu, framleiðir ný verðmæti eins og lífdísil, áburð, metangas og minnkar losun gróðurhúsalofttegunda. Í Hveragerði er verið að vinna að endurvinnslu á plasti sem skapar mun meiri innlenda veltu og verðmæti en að senda plastið erlendis. Nýta ætti úrvinnslusjóð mun betur til að liðka fyrir söfnun og skilum á verðmætum og gera þannig úrvinnsluna hagkvæmari.
Skógrækt
Auðvelt er að auka skógrækt sem bindur kolefni og verður að verðmætu lífrænu hráefni og síðar smíðavið. Verkefnið skapar vinnu og veltu, bindur kolefni sem er í raun söluvara sem skapast strax á meðan smíðaviður verður til löngu síðar. Skógrækt er því skemmtileg blanda af skammtíma- og langtímafjárfestingu. Skógræktin skapar líka skjól og eykur verðmæti lands. Nýta mætti áburð úr verkefnum eins og lífmassaverinu í skógrækt til að styðja við hringrásarkerfið.
Vélræn kolefnisbinding í bergi
Ísland er í einstakri stöðu hvað varðar jarðvarmavirkjanir, borholur og basalt og getur orðið risavaxinn milliliður í stórtæku niðurhali kolefnis úr lofthjúpnum. Til að forðast neikvæð áhrif loftslagsbreytinga telja vísindamenn að samhliða minnkun á losun sé algerlega nauðsynlegt að ná niður talsverðu af uppsöfnuðu kolefni í lofthjúpnum. Þar liggur skógrækt beinast við en auk þess þarf aðrar lausnir eins og vélræna bindingu líkt og gert er við Hellisheiðarvirkjun. Styðja þarf við þróun og uppbyggingu á slíkri tækni hér og gera Ísland að lykilaðila í niðurhali kolefnis. Hér á landi eru einstakar tæknilegar og náttúrulegar forsendur til að taka niður milljónir tonna með vélrænni og lífrænni kolefnisbindingu.
Endurheimt votlendis
Það er frekar auðvelt að hraða endurheimt votlendis enda ekki flókin aðgerð sem slík. Ríki og sveitarfélög ættu að styðja betur við kortlagningu mögulegra votlendisverkefna og hraða vinnu við endurheimt. Endurheimt votlendis bindur ekki kolefni heldur stöðvar losun og mikilvægt er að líta á slíka aðgerð sem sjálfstæða loftslagsaðgerð fremur en að tengja hana við kolefnishlutleysingu eigin losunar.
Í mínum huga þarf að flýta aðgerðum í loftslagsmálum þar sem vísindamenn hafa bent okkur á að tíminn sé að hlaupa frá okkur. Þessar aðgerðir fara vel saman við þá nauðsynlegu innspýtingu sem hagfræðingar telja að þurfi einmitt nú. Varðandi peningahliðina, þá eru tvær leiðir til að raungera þessa innspýtingu. Annars vegar væri einfaldlega hægt að auka opinbera lántöku og fjárfesta í grænum lausnum. Hin leiðin væri einfaldlega að hækka kolefnisgjaldið og fleyta þeim tekjum beint inn í aðgerðir sem minnka losun á kolefni. Það er lítið mál að örva hagkerfið með gegnumstreymi kolefnisgjalds frá skattlagningu til fjárfestinga. Með öðrum orðum fá súrefni í kerfið í gegnum kolefnið. Hvor leiðin er betri, er svo hagfræðinga að svara.
Höfundur er framkvæmdastjóri Orkuseturs.
Greinin birtist fyrst í Viðskiptablaðinu