Metan: Vandamálið og lausnin við vandanum
Metan: Vandamálið og lausnin við vandanum
Þar til fyrir þremur árum bjuggu Akureyringar við verulega skerta þjónustu varðandi aðgengi að eldsneyti á ökutæki en þá var opnuð fyrsta metan-afgreiðslustöðin utan höfuðborgarsvæðisins. Af hverju skert þjónusta? Jú, fram að því var einungis hægt að kaupa jarðefnaeldsneyti á bílinn. Metan er þar að auki um 30% ódýrara, metanbílar eru 10-15% ódýrari en bensínbílar og þegar metani er brennt drögum við úr tvöföldum loftslagsvanda; brennum ekki jarðefnaeldsneyti og minnkum útblástur á metani vegna rotnunar lífrænna efna. Í raun er það sorgleg sóun ef metani er hleypt óbrenndu upp í andrúmsloftið.
Eins og sést á myndinni er nú þegar á Akureyri heil samgöngulína í eigu bæjarins og Norðurorku sem gengur fyrir metani. Hvar er þá hindrunin? Af hverju er hlutfall metanbíla ekki hátt í öllum þeim gríðarlega flota sem bílaleigur eru að fjárfesta í þegar eldsneytið á slíka bíla er sem sagt 30% ódýrara fyrir mig sem neytanda og allir metanfólksbílar eru líka með bensíntank þannig að viðskiptavinir tapa engu nema peningum ef þeir nenna ekki að finna metan á bílinn eða finna það hreinlega ekki. Til eru frábærar metanútgáfur af dæmigerðum bílaleigubílum eins og VW golf og Skoda Octavia.
Það berast nánast daglegar fréttir af nýjum bílum af öllum stærðum og gerðum sem ganga fyrir metani. Til að mynda kynnti framleiðandinn IVECO nýlega flutningabílinn Stralis NP (Natural
Power) 460. Um bílinn segja þeir m.a.: „Tæknin skilar 99% minni útblæstri agna (sótagnir sem verða svo einn hluti svifryks) og 60% minnkun á útblæstri Nox, auk minni hávaða, eyðslu og rekstrarkostnaði en í hefðbundum dísil-flutningabíl. Drægni bílsins á metani er þar að auki allt að 1.600 km á einni fyllingu.“
Það er nóg til af metani bæði í Reykjavík og á Akureyri og það eru stór framtíðaráform á báðum stöðum um stóraukna framleiðslu á metani ekki bara á gasformi heldur einnig sem fljótandi eldsneyti. Metan er sérlega skaðlegt umhverfinu enda gríðaröflug gróðurhúsalofttegund. Ef við berum hinsvegar gæfu til að fanga það og brenna á fólksbílum náum við heilmiklum umhverfisávinningi.
Ég vona að einhver markaðsstjóri stórfyrirtækis á Íslandi sjái viðskiptatækifærin í því að kynna sitt fyrirtæki þannig að það færi viðskiptavinum sínum vörur á innlendu, kolefnishlutlausu, gjaldeyrissparandi og minna loftmengandi eldsneyti.