Rafmagnshlaupahjól eru raunhæfur samgöngukostur á Akureyri
Rafmagnshlaupahjól eru raunhæfur samgöngukostur á Akureyri
Akureyringurinn Darri Rafn Hólmarsson hefur undanfarnar vikur farið nær allar sínar ferðir á rafmagnshlaupahjóli. Hjólið keypti hann í byrjun júní og hefur nú þegar farið yfir 400 kílómetra á þessum stutta tíma. Darri er tölvunarfræðingur hjá Advania og notar hjólið mest til og frá vinnu á Tryggvabraut en hann er búsettur í Naustahverfi. En af hverju ákvað Darri að fjárfesta í rafhlaupahjóli?
„Ég held að ég hafi ekki áttað mig á því hversu ofboðslega stutt er á milli staða á Akureyri fyrr en ég prófaði að búa erlendis í stuttan tíma. Eftir það hef ég reynt að eiga helst ekki bíl. Kærastan mín á bíl og mér fannst galið að við værum tvö með tvo bíla. Því keyptum við hlaupahjólið saman frekar. Ég hef notað rafknúið reiðhjól síðustu ár og eftir að ég kom því á nagladekk þá gat ég hjólað til vinnu flesta daga ársins. Nú yfir sumartímann á þó rafhlaupahjólið hug minn allan.“
Darri segir að það séu margir kostir við þennan faramáta, fyrir utan augljósan ávinning fyrir umhverfið.
„Ég á semsagt rafmagnshjól líka en í sumar hef ég notað hlaupahjólið mun meira því mér finnst þessi fararmáti svo skemmtilegur. Hann er það skemmtilegur að ég myndi miklu frekar kjósa að fara á því á milli staða heldur en í bíl. Mér finnst ég miklu líklegri til þess að komast í vont skap við að vera akandi í umferðinni. Svo eru hlaupahjólin líka svo handhæg, t.d. er ekkert mál að fá far í bíl því rafhlaupahjólið fer bara í skottið, en það er eitthvað sem er almennt erfiðara að gera með reiðhjól.“
Einnig er auðvelt að fara aðra leiðina með strætó og grípa þá hlaupahjólið með, enda mun handhægara en reiðhjól. Þar að auki er hagkvæmnin stór kostur.
„Rekstrarkostnaður á smábíl er a.m.k. 500.000 á ári. Með því að þeysast um á rafhlaupahjóli á sumrin og negldu rafhjóli á veturna get ég varið þeim peningi í eitthvað mun skemmtilegra.“
En eru einhverjir gallar? Darri segir að rafhlaupahjól séu vanmetin sem raunhæfur kostur í samgöngum.
„Helsti gallinn finnst mér að hér fyrir norðan eru þessi hjól aðallega notuð af börnum og unglingum. Ég hef tekið eftir því að fyrir sunnan er miklu meira um það að fullorðið fólk noti svona græjur sem raunveruleg samgöngutæki.“
Rafhlaupahjól hafa verið að reiða sér til rúms í borgum um heim allan, en er framtíð fyrir þennan fararmáta á Akureyri?
„Ég held að þetta gæti haft mjög mikil áhrif á Akureyri þar sem vegalengdir eru svo stuttar. Stundum er ég gáttaður á bílafjöldanum í bænum á fallegum sumardögum. Ég myndi svo helst vilja sjá rafhlaupahjólaleigu á borð við Hopp hér í bæ við fyrsta tækifæri, en hjólin frá þeim drífa t.d. enn betur upp brekkur heldur en mitt. Svo veit ég að það eru fyrirtæki fyrir sunnan sem gefa starfsfólki sínu afnot af svona hjólum til að snattast á, meira segja til að fara á fundi með viðskiptavinum.“