Fara í efni

Rafsamgöngur í sókn

Sigurður Ingi Friðleifsson
skrifar 01. júlí 2020

Rafsamgöngur í sókn

Sprenging í sölu rafhjóla

Neytendablaðið náði tali af Sigurði Inga Friðleifssyni, fram- kvæmdastjóra Orkuseturs, en hann segir að samtals hafi um 5.000 rafbílar verið skráðir hjá Samgöngustofu og að auki hafi rúmlega 7.000 rafhjól verið flutt inn frá ársbyrjun 2019. „Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá hversu mikil aukning hefur átt sér stað í sölu rafhjóla. Snilldin við rafhjól er að þau gera allt landslag flatt enda engin átök að hjóla upp bröttustu brekkur. Það er algjörlega stillanlegt hversu mikið rafmótorinn hjálpar til svo fólk getur valið hvort og hversu mikið það notar af eigin líkamsorku. Mjög gott rafhjól er álíka mikil fjárfesting og bílpróf og ferðatími fyrir styttri ferðir í þéttum byggðum er oft á pari við einkabílinn.“

Mest seldu rafbílarnir

Samkvæmt Sigurði eru flestu rafbílarnir á götum landsins frá Nissan og Tesla, og þar á eftir eru Volkswagen og Hyundai. „Tesla hefur komið inn með látum á þessu ári og er söluhæsta bíltegundin það sem af er árinu óháð orkugjafa. Audi hefur líkað komið sterkt inn á árinu með 136 bifreiðar skráðar, þar af 107 hreina rafbíla“.

Náum tæplega að standa við skuldbindingar

Ísland hefur skuldbundið sig til að minnka losun. Ef sama þróun héldi áfram, hvað tæki langan tíma að rafbílavæða? „Í árslok 2019 voru tæplega 225.000 fólksbifreiðar á skrá á Íslandi. Bílamarkaður á Íslandi hefur sögulega verið mjög sveiflukenndur. Fólksbifreiðamarkaður á Íslandi hefur ávallt verið mjög viðkvæmur gagnvart efnahags- og gengisstöðu landsins og nýskráningar á ári sveiflast á milli 10 og 20 þúsund bíla. Fræði- lega tæki því um 10 til 15 ár að rafvæða allan fólksbílaflotann, þ.e.a.s. ef nýskráningarhlutfall rafbíla yrði 100%. Reyndar er það svo að vegasamgöngur vega svo hrikalega þungt í beinum skuld- bindingum Íslands varðandi loftslagssamninga að í raun er orðið nánast ekkert pláss fyrir nýja bensín- og dísilbíla í loftslagsbók- haldinu. Með öðrum orðum þá þarf það að gerast mjög fljótt að yfirgnæfandi meirihluti nýskráninga verði rafbílar ef við ætlum að uppfylla skuldbindingar okkar vegna Parísarsamkomulagsins.“

Er nóg af hleðslustöðvum?

Oft er því haldið fram að skortur sé á rafhleðslustöðvum, sem hamli frekari rafbílavæðingu. Er eitthvað til í því? „Með nýju hraðhleðslustöðvunum sem fyrirhugaðar eru á þessu ári fjölgar hraðhleðslustöðvum hér á landi um 40% og verða stöðvarnar í heildina 146. Nýju stöðvarnar tilheyra nýrri kynslóð hraðhleðslu- stöðva en um er að ræða 150 kW hleðslustöðvar sem geta hlaðið tvisvar til þrisvar sinnum hraðar en þær hraðhleðslustöðvar sem fyrir eru. Að auki hefur Tesla í hyggju að setja upp fjórar til fimm stöðvar á landinu á þessu ári.“

Sigurður segir ennfremur að á síðustu tveimur árum hafi að auki verið settur upp fjöldi minni hleðslustöðva. „Á vefsíðunni www.plugshare.com má sjá allar stöðvar á Íslandi sem eru opnar almenningi. Þá færist mjög í vöxt að vinnustaðir setji upp stöðvar fyrir starfsfólk sitt og á síðasta ári tók einnig gildi ákvæði í byggingarreglugerð varðandi hleðslustöðvar í nýbyggingum.“ Sigurður segir því margt í gangi en hafa verði í huga að rafbílar hafa aðrar innviðaþarfir en bensín- og dísilbílar þar sem orkuá- fylling fer að langmestu leyti fram á heimilum og vinnustöðum. Það sé því ofmat hjá sumum hversu víðtækir innviðir þurfa að vera. „Vissulega gætu komið upp tímabundnir flöskuhálsar varð- andi hleðslu á milli landsvæða, t.d. ef Félag rafbílaeigenda myndi ákveða að halda stóra árshátíð á Þórshöfn. Það eru hinsvegar allar forsendur til þess að uppbygging hleðslustöðva geti haldið í við eftirspurn til örlítið lengri tíma litið.“

Lítill áhugi hjá bílaleigum

Nú er staðan sú að mikið er til af notuðum bílum á markaði og eftirspurn eftir rafbílum fer ört vaxandi. Mun markaðurinn fyllast af notuðum bensín- og díselbílum og mun það hægja á rafbílavæðingu? „Það sem gæti gerst er að neytendur taki ákvörðun um að skipta yfir í rafbíl en hafa ekki fundið rétta gerð eða verð ennþá. Þetta myndi leiða til þess að tímabundið myndi hægja á bílainnflutningi á meðan neytendur hanga á eldri bensín- og dísilbílum í bið sinni eftir draumarafbílnum. Það myndi þýða auka innspýtingu í bílaviðgerðabransann sem fengi auka viðhaldsverkefni. Því miður fyrir þennan iðnað þá yrði þetta líklega einungis tímabundið og við tæki minni eftirspurn þar sem rafbílar þurfa mun minna viðhald. Mestu áhyggjur mínar eru bílaleigur sem hafa tekið ákvarðanir um 30 til 50% bílakaupa fyrir Ísland sem enda svo flestir í höndum neytenda sem notaðir bílar. Áhugi þeirra á rafbílum hefur verið umtalsvert minni en hjá almenningi og það hægir verulega á nauðsynlegri rafbílavæðingu. Til að taka þetta saman þá skiptir kannski ekki öllu máli verð eða notkun á bensín- og dísilbílum sem þegar eru komnir til landsins því á endanum úreldast þeir á 10 til 20 árum. Innflæðið er það sem þarf að huga að og eins og áður segir þá er eiginlega lítið pláss á loftslagslegum forsendum fyrir nýskrán- ingar á bílum sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti,“ segir Sigurður að lokum.

 

 

Sigurður Ingi Friðleifsson er framkvæmdastjóri Orkuseturs

Greinin birtist fyrst í Neytendablaðinu