Fara í efni

Skiptum um gír

Hildur María Hólmarsdóttir
skrifar 20. ágúst 2020

Skiptum um gír

Stærsti einstaki hluti þeirrar losunar sem Ísland ber ábyrgð á er vegna losunar frá vegasamgöngum. Árið 2018 voru þetta milljón tonn CO2 -ígilda. Hið sama gildir um Akureyrarbæ, en hlutfall losunar vegna vegasamgangna nam rúmlega 40% árið 2018. Eins og segir í aðgerðaráætlun stjórnvalda í loftslagsmálum eru orkuskipti sem betur fer á fleygiferð hér á landi. Framboð og eftirspurn á rafbílum eykst stöðugt og innviðir til þess að þjóna þeim vex í takt við það. Eins er metan víða nýtt sem eldsneyti, til dæmis ganga nú 50% af strætisvögnum Akureyrar á metani. Hlutverk Vistorku er meðal annars að ýta undir þessa uppbyggingu á Akureyri og er það ánægjulegt að sjá þegar fleiri og fleiri velja innlenda orku fram yfir innflutt jarðefnaeldsneyti. Hins vegar eru rafbílar ennþá bílar. Bílafloti landsins er nú þegar gríðarlega stór, en á Akureyri eru yfir 700 bílar á hverja 1.000 íbúa, sem er nálægt því að vera heimsmet. Bílaframleiðsla er orkufrek, mengandi og krefst ýmissa fágætra hráefna, svo ekki sé talað um hversu plássfrekir bílar eru í bæjarmyndinni. Orkuskipti eru nauðsynleg en ekki má gleyma áherslunni á breyttar ferðavenjur Íslendinga.

Nú á dögunum kynnti Boris Johnson áform ríkisstjórnar Bretlands um margra milljarða fjármögnun á uppbyggingu hjólastíga. Þetta er sett fram í áætluninni „Gear Change” eða „Gírskipting”. Sjálfur segir Johnson að þessar aðgerðir miði að því að hrinda af stað róttækustu breytingum borga síðan að uppbygging innviða fyrir einkabílinn hófst. Aðgerðirnar eru metnaðarfullar, þar sem pláss fyrir hjólastíga er aukið og reiðhjól aðgreind frá annari umferð, með það að markmiði að skapa skilvirkara og öruggara samgöngukerfi. Fram kemur í áætluninni að ávinningur hjólreiða finnst ekki einungis hjá þeim sem velja að hjóla, heldur einnig hjá þeim sem kjósa það ekki. Hjólreiðafólkið sjálft verður glaðara og heilbrigðara, en val þeirra leiðir einnig til minni mengunar, minni umferðarhávaða og minni umferðarteppu sem skilar sér til allra. Heilsueflandi áhrif svokallaðra virkra fararmáta er gert hátt undir höfði í áætluninni, en það eru fararmátar sem fela í sér hreyfingu. Fram kemur að sjötta hvern dauða í Englandi er hægt að rekja til hreyfingarleysis og í ákveðnum tilfellum eru heimilislæknar nú hvattir til þess að skrifa upp á hjólreiðar í stað lyfseðla, og sjúklingum boðið upp á hjólreiðaþjálfun.

Fyrr á árinu kynnti Akureyrarbær fyrirhugaða breytingu á aðalskipulagi bæjarins sem felur í sér nýtt stígakerfi. Þar segir meðal annars:

“Stefna Akureyrarbæjar er að byggja núverandi kerfi blandaðra stíga á þann hátt að þeir henti sífellt betur fyrir umferð hjóla. Fyrst í stað byggist umferðin á góðri sambúð gangandi og hjólandi vegfarenda þar sem almennur hægri réttur gildir en með tímanum og með nýjum stígum fjölgar þeim hjólaleiðum sem eru aðskildar frá annarri umferð. Með því að standa vel og skynsamlega að hönnun og uppbyggingu stígakerfisins verða hjólreiðar að raunhæfum valkosti í samgöngum bæjarfélagsins.”

Innviðirnir verða að vera til staðar til þess að ýta undir þróunina, eins og yfirvöld í Danmörku og Hollandi áttuðu sig á fyrir áratugum síðan, sama á við um „gírskiptingu“ Englands nú. Metnaðarfull og hnitmiðuð innviðauppbygging gerir bæjarbúum kleift að fara ferða sinna hjólandi. Því er nýtt stígakerfi Akureyrarbæjar forsenda þróunar á breyttum ferðavenjum Akureyringa, þar sem virkir ferðamátar verða í miðpunkti – öllum til gagns.

Greinin birtist fyrst á kaffid.is

Hildur María Hólmarsdóttir
Höfundur er sumarstarfsmaður Vistorku

 

Tilvísanir:

https://www.stjornarradid.is/library/02-Rit--skyrslur-og-skrar/Adgerdaaetlun%20i%20loftslagsmalum%20onnur%20utgafa.pdf

https://www.forbes.com/sites/carltonreid/2020/07/27/well-build-thousands-of-miles-of-protected-cycleways-pledges-boris-johnson/?fbclid=IwAR2rsw3KDBmwXB2omwsrhpLo4uWdHGOlOdQkQg5y8uyHn5IDfOHrnioqM1E#2bd628346b2c

https://www.akureyri.is/static/files/Skipulagsdeild/Adalskipulagid/sttigakerfi/greinargerdstigar.pdf