Fara í efni

Hvað varð um alla öskubakkana?

Guðmundur Sigurðarson
skrifar 14. janúar 2017

Hvað varð um alla öskubakkana?

Það má líkja brennslu á olíu við reykingar eða sykurneyslu, menn byrja á smá smakki og enda síðan í bullandi ofneyslu. Notkun olíu er alheimsvandamál sem við Íslendingar getum ekkert hoppað framhjá með því að segjast nota jarðhita og vatnsafl til að kynda og lýsa. Þróunin virðist meira að segja vera að olía sé á útleið á svipuðum forsendum og reykingar. Sem betur fer, enda var samið um stórfelldan samdrátt á notkun hennar með Parísarsamkomulaginu.

Nú um 150 árum eftir að byrjað var að nýta olíu sem almenna vöru er nefnilega svo komið að mannskepnan þarf að grípa inn í ferlið með nútíma neyslustýringu: löggjöf og skattlagningu.

Í upphafi árs 2014 tóku gildi lög hér á Íslandi um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi. Lögin kveða á um að frá 1. janúar 2015 skuli söluaðilar eldsneytis á Íslandi tryggja að minnst 5% af orkugildi heildarsölu af eldsneyti til notkunar í samgöngum á öllu landinu á ári, sé endurnýjanlegt eldsneyti.

Þessi lög marka mikil tímamót í orkuskiptum í samgöngum á Íslandi. Vegferðin er hafin. Þegar lögin tóku gildi var ekki mikið um innlenda framleiðslu á endurnýjanlegu eldsneyti en lögin hafa skapað svigrúmið og galopna markaðinn.

Árleg eldsneytisnotkun í samgöngum á Íslandi er í kringum 300 milljón lítrar, 5% af þeim markaði er þá um 15 milljón lítrar. En í lögunum stendur einnig: „endurnýjanlegt eldsneyti sem unnið er úr lífrænum eða ólífrænum úrgangsefnum sem ekki er unnt að nýta til manneldis eða sem dýrafóður má telja tvöfalt“. Þetta þýðir að t.d. metan framleitt úr lífrænu sorpi telur tvöfalt sem aftur þýðir að ef allt endurnýjanlega eldsneytið fellur undir þessa grein þá þarf 7,5 milljónir lítra til að uppfylla lögin.

Í dag eru nokkur fyrirtæki á Íslandi sem framleiða íslenskt umhverfisvænt eldsneyti auk raforkufyrirtækjana sem framleiða okkar grænu raforku. Carbon Recycling International ehf. (www.cri.is) nýtir íslenska raforku, koltvísýring og vatn til framleiðslu metanóls sem nota má sem íblöndunarefni í bensín. Sorpa bs. og Norðurorka hf. framleiða metan úr lífrænum úrgangi og Lífdísill ehf og Orkey ehf. framleiða lífdísil úr dýrafitu og notaðri steikingarolíu sem er hægt að nota hreint á dísilvélar eða sem íblöndun í dísilolíu. Miðað við núverandi framleiðslu og þau áform sem félögin hafa um framleiðsluaukningu eru líkur á að innlend framleiðsla verði eftir 2-3 ár yfir 10 milljónir lítra. Veltan hjá þessum innlendu framleiðendum getur því verið í kringum tveir milljarðar á ári. Nánast hver einasta króna verður eftir í innlenda hagkerfinu á meðan um 100 kr af hverjum bensín lítra fer beint til olíuríkjana.

Í þessari umræðu eins og annarri er til fullt af efasemdar fólki. Það hafa verið skrifað greinar og haldnar ræður á Alþingi um ókosti þessarar lagasetningar og talað um að fjármunir streymi úr landi og bíleigendur tapi milljörðum. En einmitt vegna þessarar lagasetningar er hafin innlend framleiðsla á umhverfisvænu eldsneyti.

Í þessari umræðu sem er reynt að rugla með eftirá skýringum er rétt að koma eftirfarandi á framfæri:

  1. Endurnýjanlegt eldsneyti ber afar sterkar sjálfbærnikröfur. Það þýðir að það endurnýjanlega eldsneyti sem við flytjum inn, sem og það sem við framleiðum, dregur sannanlega úr losun miðað við áframhaldandi jarðefnaeldsneytisnotkun. (Þ.e.a.s. þetta er ekki bara út í bláinn)
  2. Grófa myndin er einföld. Ef við gefum afslátt af vörugjöldum vegna endurnýjanlegs eldsneytis sem er u.þ.b. 5% af heildarorkunotkuninni á bílaflotann, þá er lækkun heildarvörugjalda á eldsneyti sem því nemur. Þ.e. ef vörugjöldin eru 20 milljarðar, er lækkunin um einn milljarður. Þetta eru bein áhrif á ríkissjóð. Þetta hefur alltaf verið vitað, var reiknað út löngu áður en lögin voru sett og á því ekki að koma nokkrum manni á óvart. Enda var þetta talin fjárfesting en ekki kostnaður.

Varðandi fjárfestinguna er rétt að benda á eftirfarandi:

  1. Innflutningsverðmæti olíuafurða eru og hafa verið á undanförnum áratugum í kringum tíu prósent af heildarverðmæti innflutnings hvers árs. Sum árin (t.d. rétt eftir hrun) var þessi prósenta mun hærri.
  2. Olíufélögin hafa verið afar treg að markaðssetja íslenskt eldsneyti. Hér má nefna metanól CRI sem er framleitt í stórum stíl en að mestu flutt út og ekkert fer beint á íslenska bíla, en þetta á líka við um lífdísilolíuna.
  3. Líta má á afslátt af vörugjöldum sem óbeinan stuðning við íslenskan iðnað, enda myndu flest þeirra fyrirtækja sem starfa við eldsneytisframleiðslu í dag hætta starfsemi ef þessa afsláttar nyti ekki við. Að snúa við nú væri jafngilt því að slökkva á heilli iðngrein á Íslandi. Hvað kostar það?

Mætti ekki jafnvel ganga lengra og segja að það mætt veita þessari framleiðslu beinan ríkisstuðning á nákvæmlega sömu rökum og við styðjum við mjólkurframleiðslu (hvorutveggja orka svo við getum hreyft okkur milli staða, önnur fyrir kroppinn hin fyrir bílinn). Fyrirtækin sem hér skrifa undir framleiða innlenda umhverfisvæna orku sem skapar störf, sparar gjaldeyri og eykur matvælaöryggi. Matvælaöryggi? Já, ef innflutningur lokast vegna einhverra hörmunga á heimsvísu. Þá hlýtur að vera jafnmikilvægt að huga að innlendri eldsneytisframleiðslu eins og innlendri matvælaframleiðslu. Er ekki líklegt að hikst verði á aðgengi að erlendri olíu ef erlendir matvælaflutningar takmarkast vegna ókyrrðar á heimsvísu?

 

Veljum íslenska orku bæði á diskinn og á bílinn!

F.h. Orkeyjar ehf., Lífdísils ehf., CRI ehf., Sorpu bs. og Norðurorku hf.

Guðmundur Haukur Sigurðarson

Formaður stjórnar Orkeyjar ehf.

 

Tilvísanir:

http://www.reglugerd.is/reglugerdir/eftir-raduneytum/umhverfis--og-audlindaraduneyti/nr/20287

https://www.fib.is/is/um-fib/frettir/vinandablandad-bensin-a-islandi-1

http://www.visir.is/er-iblondunin-soun-almannafjar-/article/2015150309641

http://www.visir.is/blondun-lifeldsneytis-kostadi-1,1-milljard-i-fyrra/article/2016161109960

http://www.orkustofnun.is/orkustofnun/frettir/nr/1671