Mitt mat á metani
Mitt mat á metani
Við Íslendingar höfum skuldbundið okkur til að mæta markmiðum Parísarsamkomulagsins. Það þýðir að þetta er sameiginleg ábyrgð landsmanna en hvað get ég sem einstaklingur gert? Stóriðjan er víst í sér kerfi og hefur því ekkert með okkar skuldbindingar að gera. Ég er ekki í útgerð þannig að ég hef lítil áhrif á skipa flotann, ég er ekki bóndi þannig að lítið geri ég í landbúnaðinum og ég á ekki neitt uppþurrkað land þannig að ekki fylli ég í neina skurði. Að auki er öll raforka sem ég nota kolefnislaus og hitinn í húsinu kemur frá umhverfisvænum jarðhita.
En ég á bíl. Í okkar daglega lífi eru samgöngur einmitt stóra en jafnframt aðgengilegasta málið í Parísarsamkomulaginu. Í dag standa engar tæknilegar hindranir í vegi fyrir því að fara á fullt í orkuskipti í samgöngum; hindranirnar búa eingöngu í höfðinu á okkur. Ég hef heyrt allar útgáfur af mögulegum afsökunum fyrir því að fólk treystir sér ekki til að kaupa rafmagns eða metanbíl. Þeir bara henta ekki við hinar og þessar aðstæður. En er það svo? Tökum eitt lítið dæmi. Það er hægt að kaupa nýjan sjálfskiptan metan fólksbíl á um 3,5 milljónir. Svona til áréttingar er rétt að minna á að metan er umhversvænt ódýrara eldsneyti sem er framleitt á Akureyri. Það er vissulega ekki hægt að kaupa metan um allt land en metanbílar eru reyndar líka með tank í fullri stærð fyrir bensín þannig að það er í rauninni ekki vandamál. En þeir eru ekki 4x4 og maður ferðast nú ekki mikið um hálendi Íslands eða í bullandi ófærð á slíkum bílum.
Allt í lagi, mikið rétt, en hver er lausnin við því? Margir Íslendingar hafa leyst þetta með því að kaupa sér jeppa. Segjum nú að sá sem ætlar að kaupa sér nýjan jeppa kaupi sér frekar t.d. metan VW Golf eða G-tech Skoda.
Í fyrsta lagi munar alla vega um 5 milljónum á innkaupsverði á nýjum metan VW Golf og nýjum góðum jeppa.
Í öðru lagi, miðað við meðalakstur og eldsneytiskaup í 5 ár, er munurinn á innkaupum plús eldsneyti 5,5 milljónir. Fyrir þá upphæð er hægt að leigja stóran nýjan jeppa (skv. verðskrá Hölds) í 150 daga sem þýðir 30 dagar á ári á þessu 5 ára tímabili. Risastór samviskuspurning er því: Hversu marga daga á ári nota jeppaeigendur jeppann á vegum sem fólksbíll kemst ekki vegna aðstæðna eða færðar? Ég er ansi hræddur um að hjá flestum séu þetta afar fáir dagar, sem þýðir að nánast alla daga eru menn að ferðast um á of stórum bíl sem eyðir of mikilli olíu og mengar of mikið.
Með Parísarskuldbindingum okkar eru olíueyðsla og útblástur einstaklinga ekki lengur einkamál hvers og eins. Ef allir halda áfram að kaupa og keyra stóra jeppa mun einfaldlega leggjast á þjóðina alla, líka þá sem eiga umhversvænni bíla, kostnaður við kaup á kolefniskvóta til að uppfylla bindandi skuldbindingar. Er það ásættanlegur þjóðarskattur vegna gerviþarfa allt of margra bílaeigenda?
Auðvitað er til fólk sem kemst illa af án stórra bíla og verður að vera á þeim áfram en í nútíma vegaker landsins verðum við að fara að viðurkenna að það er frekar lítill hópur.
Golf-inn er eitt dæmi um lausn á því að fá sér nýjan umhversvænan bíl sem mögulega hentar ekki við allar aðstæð ur. Síðan er til fullt af öðrum lausnum, eins og jepplingar sem eru tengiltvinnbílar og svo auðvitað Tesla sem er 100% rafmagnsbíll með mikla drægni og fjórhjóladrif.
Greinin birtist fyrst í Vikudegi