Grænar greinar - hluti I - Molta
Grænar greinar - hluti I - Molta
Fyrstu íbúðarhúsin á Akureyri risu seinnihluta 17. aldar og má því segja að samfélagið okkar hér á Akureyrinni hafi að mestu byggst upp á síðustu 250 árum. Margt eða kannski réttara sagt allt hefur breyst frá þeim tíma.
Á síðustu 70-80 árum hefur íbúum fjölgað um 15.000 manns. Í dag búa rúmlega 18.200 einstaklingar á Akureyri, á 7.500 heimilum og aka um 110 km af malbikuðum götum á 13.400 fólksbifreiðum (sem nota bensín og dísil) og 70 bifreiðum sem geta notað umhverfisvæna orku (0,5% af bílaflotanum) og látum frá okkur hvert og eitt um 1 tonn af úrgangi á ári eða ríflega 18.000 tonn samtals.
Til að láta þetta allt saman ganga sem best fyrir sig með sem minnstu veseni höfum við komið okkur upp ýmsum ferlum . Verkefni eins og rekstur; sundlauga, hitaveitu, rafveitu, fráveitu, skíðasvæðis, snjómoksturs, strætó, sorphirðu, leik- og grunnskóla eru dæmi um verkefni sem við þurfum lítið að spá í dags daglega, þau bara virka í flestum tilfellum. Við sættum okkur hinsvegar ekki við að þessum verkefnum sé sinnt af neinni meðalmennsku því um leið og þjónustustigið minnkar eða breytist fá stjórnendur bæjarins skýr skilaboð frá samfélaginu.
Öll gerum við okkur fyllilega grein fyrir því að þetta kostar allt mikla peninga en hvort við gerum okkur minna grein fyrir því vegna þeirrar staðreynda að það er frítt í strætó, við notum klukku í stað peninga á bílastæðin í miðbænum og það kemur ekki sérstakur reikningur til okkar fyrir sorphirðu. Ég skal ekki segja.
Árið 2009 reistum við Eyfirðingar jarðgerðastöðina Moltu til að taka við lífrænum úrgangi á svæðinu. Verkefnið lenti í miðju hruni og skuldirnar urðu óviðráðanlegar. Samið var við lánadrottna og skuldirnar stilltar af þannig að þær tekjur sem félagið hefur af móttöku á lífrænum úrgangi duga fyrir útgjöldunum og afborgun af lánum. Hvað hefði gerst ef ekki hefði verið samið um skuldirnar? Molta er ekki eins og hvert annað fyrirtæki. Ef blaðaútgáfa fer í gjaldþrot þá hættir blaðið bara að koma út en ef fyrirtæki eins og Molta fer í þrot þá hættir ekki lífrænn úrgangur að streyma frá samfélaginu.
Í dag er Molta rekin réttum megin við núllið og unnið er að því að búa til meiri verðmæti úr afurðinni, moltunni sjálfri. Félagið fékk nýlega styrk frá Matís til að vinna að gæðamálum og vöruþróun, einnig er í gangi tilraunaverkefni Skógræktarinnar, Landgræðslunnar og Moltu þar sem kannað er hvernig moltan hentar sem nesti fyrir skógarplöntur í mjög rýru landi. Ef tilraunin gefst vel gæti verið komin hentug aðferð til að gefa berum auðnum líf og koma þar af stað gróðurframvindu eins og segir í frétt á vefsíðu félagsins. Til marks um mikilvægi þessa verkefnis þá útnefndu Sameinuðu þjóðirnar árið 2015 ár jarðvegs, einmitt til að vekja athygli á mikilvægi jarðvegs og þeim ógnum sem steðja að honum í heiminum.
Yfirvöld á Íslandi hafa bæði í orði og á borði komið fram með skýra stefnu í þessum málum. Í stjórnarsáttmála núverandi ríkisstjórnar stendur: „Mikilvægt er að beita hvetjandi aðgerðum í efnahagslífinu til að ýta undir græna starfsemi. Nýta ber vistvæna orkugjafa enn frekar við samgöngur. Hvatt verði til þess að dregið verði úr notkun jarðefnaeldsneytis. Brýnt er að dregið verði úr nettólosun gróðurhúsalofttegunda, bæði með því að draga úr beinni losun af mannavöldum og með því að stórauka landgræðslu, skógrækt og aðra eflingu gróðurlenda.“
Í dag er lagt kolefnisgjald á allt innflutt jarðefnaeldsneyti og ýmsar ívilnanir fyrir
Á Akureyri/Eyjafirði höfum við allt til að þess að leiða þessa stefnu og markmið: Jarðgerðina eins og var rakið hér að ofna, skógræktin eflist ár frá ári (græni trefillinn), árið 2011 var byrjað að framleiða lífdísil úr notaðri matarolíu og í fyrra hófum við nýtingu á metangasi af gömlu sorphaugunum á Glerárdal.
Hér er aðeins reynt að benda á að við höfum svo margt sem er jafn gott eða betra en það sem við erum að flytja inn en framleiðslan strandar oft á því að það getur verið mikið bras að koma rekstrinum á lappir og oft er varan aðeins dýrari en þá kemur stóra stóra spurning - er hún dýrari þegar allt er tekið með?
Grein þessi birtist fyrst í Vikudegi.