Samgöngumátasamanburður
Samgöngumátasamanburður
Það er snúið að bera saman ólíka samgöngumáta en ein leið er að bera þá saman sem þjónustu. Hver er hin raunverulega þjónustueining í samgöngum? Hún er í raun sáraeinföld; það er færsla á fólki og hlutum á milli staða um ákveðna vegalengd. Það eru ýmsar leiðir til uppfylla þessa þjónustuþörf þó langflestir telji ennþá að einkabíllinn sé eina lausnin, hvort sem um að ræða uppbyggingu innviða eða val á samgöngumáta.
Í þessum pistli er ætlunin að taka saman eftirfarandi atriði:
- Fjárfestinga- og rekstrarkostnað
- Þjónustugæði
- Umhverfisáhrif
- Áhrif á heilsufar
Þessi atriði eru svo borin saman fyrir eftirfarandi samgöngumáta:
- Bensín- og dísilbíla
- Rafmagns- og metanbíla
- Almenningssamgöngur
- Reiðhjól og göngu.
Skalinn er frá 1-5 þar sem 1 er verst og 5 best.
Bensín- og dísilbílar
Bílar geta veitt góða samgönguþjónustu. Bílar taka yfirleitt 5 eða fleiri farþega, bera talsvert af farangri og skila neytendum langar vegalengdir með lítilli fyrirhöfn. Einkabíllinn fær því hæstu einkunn fyrir þjónustugæði.
Kaup og rekstur bíls vegur hins vegar gríðarlega þungt í heimilisbókhaldinu. Óumflýjanlegur rekstrarkostnaður er eldsneyti, dekk, viðhald á vél, tryggingar, skoðun og bifreiðagjöld, auk þess sem bíllinn lækkar í verði eftir því sem tímanum líður. Í greiningu sem Íslandsbanki gerði er áætlað að rekstrarkostnaður vegna þessara þátta sé að meðaltali um 1,2 milljónir á ári. Bensín- og dísilbílar fá því eðlilega hörmulega einkunn þegar kemur að kostnaði.
Á Íslandi notar hver bíll um 1.000 lítra af eldsneyti á ári að meðaltali, sem losa um 2.600 kg af CO2. Framleiðsla á bílnum sjálfum, auk dekkja og varahluta, kallar líka á mikla losun gróðurhúsalofttegunda. Umhverfiseinkunn bensín- og dísilbíla er því býsna botnlæg.
Bílar skora heldur ekki hátt þegar kemur að heilsufarsáhrifum. Einkabíllinn dregur verulega úr nauðsynlegri líkamlegri hreyfingu og hefur hæstu slysatíðni allra samgöngumáta. Einnig má bæta við að bensín- og dísilbílar spúa frá sér heilsuspillandi mengun þannig að falleinkunn blasir við í þeim flokki líka.
Metan- og rafbílar
Þjónustugæði metan- og rafbíla eru þau sömu og fyrir aðra einkabíla. Rafbílar hafa þó mikla yfirburði í rekstri á ýmsum sviðum; þeir eru með bestu orkunýtnina og þurfa minna viðhald, þeim fylgir engin mengun og lítill hávaði, og þeir bjóða upp á miklu meiri hröðun en bensín- og dísilbílar.
Rekstrarkostnaður rafbíls er brot af kostnaðinum við rekstur bensínbíls. Einnig fá rafbílar örlítið hærri heilsufarseinkunn enda án púströrs. Varðandi umhverfismálin þá skora metanbílar líka hátt þar enda draga þeir ekki aðeins úr innflutningi á olíu heldur draga þeir jafnframt á sama tíma úr losun á metani.
Almenningssamgöngur
Árskort í strætó á höfuðborgarsvæðinu kostar um 75.000 kr. en á Akureyri er frítt í strætó. Almenningssamgöngur fá því góða einkunn á útgjaldahliðinni. Á Akureyri ganga vagnar á metani og orkuskipti í almenningsvögnum á höfuðborgarsvæðinu eru líka í fullum gangi. Vissulega eru talsverðar þjónustutakmarkanir í samanburði við einkabílinn en með góðu skipulagi og útsjónarsemi er hægt að nýta strætó bæði innanbæjar og milli landshluta. Hafa ber í huga að leigubílar eru hluti af almenningssamgöngum og fjárhagslegur ávinningur neytenda af nýtingu strætisvagna skapar mikið rými til að nýta sér leigubíla að einhverju leyti og lyfta þannig upp þjónustueinkunninni.
Hjólreiðar og ganga
Það skyldi engan undra að hjólreiðar og ganga fá fullt hús stiga Þegar kemur að kostnaði, umhverfismálum og heilsufari. Þjónustugæðin eru í raun eini veikleikinn en rafhjól geta þó aukið þau talsvert enda afar þægileg í notkun. Rafhjólin fletja út kúrfuna eða brekkuna. Snilldin við rafhjól er að þau gera allt landslag flatt enda engin átök að hjóla upp bröttustu brekkur. Mjög gott rafhjól er álíka þung fjárfesting og bílpróf og ferðatími fyrir styttri ferðir í þéttum byggðum er oft á pari við einkabílinn.
Niðurstöður
Þegar heildarhagsmunir neytenda eru teknir saman er alveg ljóst að algengasti samgöngumátinn, bensín- og dísilbílar, fær lægstu heildareinkunnina. Þrátt fyrir það er einkabíllinn langalgengasti samgöngumátinn, meira segja þegar um styttri ferðir er að ræða. Ljóst er að flestir neytendur kjósa að einblína á þjónustugæðin og hunsa fjárfestinga- og rekstrarkostnað, umhverfisáhrif og heilsuþáttinn. Hvort og þá hvernig við breytum því viðhorfi er spurning sem verðugt er að svara.
Guðmundur Haukur Sigurðarson
Framkvæmdastjóri Vistorku ehf.
Greinin birtist fyrst í Kjarnanum