Fara í efni

Samgöngumátasamanburður

Guðmundur Sigurðarson
skrifar 16. september 2020

Samgöngumátasamanburður

Það er snúið að bera saman ólíka sam­göngu­máta en ein leið er að bera þá saman sem þjón­ustu. Hver er hin raun­veru­lega þjón­ustu­ein­ing í sam­göng­um? Hún er í raun sára­ein­föld; það er færsla á fólki og hlutum á milli staða um ákveðna vega­lengd. Það eru ýmsar leiðir til upp­fylla þessa þjón­ustu­þörf þó lang­flestir telji ennþá að einka­bíll­inn sé eina lausn­in, hvort sem um að ræða upp­bygg­ingu inn­viða eða val á sam­göngu­máta.

Í þessum pistli er ætl­unin að taka saman eft­ir­far­andi atriði:

  • Fjár­fest­inga- og rekstr­ar­kostnað
  • Þjón­ustugæði
  • Umhverf­is­á­hrif
  • Áhrif á heilsu­far

Þessi atriði eru svo borin saman fyrir eft­ir­far­andi sam­göngu­máta:

  • Bens­ín- og dísil­bíla
  • Raf­magns- og met­an­bíla
  • Almenn­ings­sam­göngur
  • Reið­hjól og göng­u.

Skal­inn er frá 1-5 þar sem 1 er verst og 5 best.

Bens­ín- og dísil­bílar

Bílar geta veitt góða sam­göngu­þjón­ustu. Bílar taka yfir­leitt 5 eða fleiri far­þega, bera tals­vert af far­angri og skila neyt­endum langar vega­lengdir með lít­illi fyr­ir­höfn. Einka­bíll­inn fær því hæstu ein­kunn fyrir þjón­ustugæði.

Kaup og rekstur bíls vegur hins vegar gríð­ar­lega þungt í heim­il­is­bók­hald­inu. Óum­flýj­an­legur rekstr­ar­kostn­aður er elds­neyti, dekk, við­hald á vél, trygg­ing­ar, skoðun og bif­reiða­gjöld, auk þess sem bíll­inn lækkar í verði eftir því sem tím­anum líð­ur. Í grein­ingu sem Íslands­banki gerði er áætlað að rekstr­ar­kostn­aður vegna þess­ara þátta sé að með­al­tali um 1,2 millj­ónir á ári. Bens­ín- og dísil­bílar fá því eðli­lega hörmu­lega ein­kunn þegar kemur að kostn­aði.

Á Íslandi notar hver bíll um 1.000 lítra af elds­neyti á ári að með­al­tali, sem losa um 2.600 kg af CO2. Fram­leiðsla á bílnum sjálf­um, auk dekkja og vara­hluta, kallar líka á mikla losun gróð­ur­húsa­loft­teg­unda. Umhverf­is­ein­kunn bens­ín- og dísil­bíla er því býsna botn­læg.

Bílar skora heldur ekki hátt þegar kemur að heilsu­fars­á­hrif­um. Einka­bíll­inn dregur veru­lega úr nauð­syn­legri lík­am­legri hreyf­ingu og hefur hæstu slysa­tíðni allra sam­göngu­máta. Einnig má bæta við að bens­ín- og dísil­bílar spúa frá sér heilsu­spill­andi mengun þannig að fall­ein­kunn blasir við í þeim flokki líka.

Met­an- og raf­bílar

Þjón­ustugæði met­an- og raf­bíla eru þau sömu og fyrir aðra einka­bíla. Raf­bílar hafa þó mikla yfir­burði í rekstri á ýmsum svið­um; þeir eru með bestu orku­nýtn­ina og þurfa minna við­hald, þeim fylgir engin mengun og lít­ill hávaði, og þeir bjóða upp á miklu meiri hröðun en bens­ín- og dísil­bíl­ar.

Rekstr­ar­kostn­aður raf­bíls er brot af kostn­að­inum við rekstur bens­ín­bíls. Einnig fá raf­bílar örlítið hærri heilsu­fars­ein­kunn enda án púströrs. Varð­andi umhverf­is­málin þá skora met­an­bílar líka hátt þar enda draga þeir ekki aðeins úr inn­flutn­ingi á olíu heldur draga þeir jafn­framt á sama tíma úr losun á met­ani.

Almenn­ings­sam­göngur

Árskort í strætó á höf­uð­borg­ar­svæð­inu kostar um 75.000 kr. en á Akur­eyri er frítt í strætó. Almenn­ings­sam­göngur fá því góða ein­kunn á útgjalda­hlið­inni. Á Akur­eyri ganga vagnar á met­ani og orku­skipti í almenn­ings­vögnum á höf­uð­borg­ar­svæð­inu eru líka í fullum gangi. Vissu­lega eru tals­verð­ar­ ­þjón­ustu­tak­mark­anir í sam­an­burði við einka­bíl­inn en með góðu skipu­lagi og útsjón­ar­semi er hægt að nýta strætó bæði inn­an­bæjar og milli lands­hluta. Hafa ber í huga að leigu­bílar eru hluti af almenn­ings­sam­göngum og fjár­hags­legur ávinn­ingur neyt­enda af nýt­ingu stræt­is­vagna skapar mikið rými til að nýta sér leigu­bíla að ein­hverju leyti og lyfta þannig upp þjón­ustu­ein­kunn­inni.

Hjól­reiðar og ganga

Það skyldi engan undra að hjól­reiðar og ganga fá fullt hús stiga Þegar kemur að kostn­aði, umhverf­is­málum og heilsu­fari. Þjón­ustugæðin eru í raun eini veik­leik­inn en raf­hjól geta þó aukið þau tals­vert enda afar þægi­leg í notk­un. Raf­hjólin fletja út kúr­f­una eða brekk­una. Snilldin við raf­hjól er að þau gera allt lands­lag flatt enda engin átök að hjóla upp brött­ustu brekk­ur. Mjög gott raf­hjól er álíka þung fjár­fest­ing og bíl­próf og ferða­tími fyrir styttri ferðir í þéttum byggðum er oft á pari við einka­bíl­inn.

Nið­ur­stöður

Samanburður á mismunandi samgöngumátum.
Samanburður á mismunandi samgöngumátum.
 

Þegar heild­ar­hags­munir neyt­enda eru teknir saman er alveg ljóst að algeng­asti sam­göngu­mát­inn, bens­ín- og dísil­bíl­ar, fær lægstu heild­ar­ein­kunn­ina. Þrátt fyrir það er einka­bíll­inn langal­geng­asti sam­göngu­mát­inn, meira segja þegar um styttri ferðir er að ræða. Ljóst er að flestir neyt­endur kjósa að ein­blína á þjón­ustugæðin og hunsa fjár­fest­inga- og rekstr­ar­kostn­að, umhverf­is­á­hrif og heilsu­þátt­inn. Hvort og þá hvernig við breytum því við­horfi er spurn­ing sem verð­ugt er að svara.

Guðmundur Haukur Sigurðarson
Framkvæmdastjóri Vistorku ehf.

Greinin birtist fyrst í Kjarnanum