Strætóskólinn
Strætóskólinn
Almenningssamgöngur eru samgönguform sem löngum hefur átt erfitt uppdráttar á Íslandi. Lítil hefð hefur verið fyrir því að nýta almenningssamgöngur innanbæjar sem og milli landshluta. Einkabíllinn hefur löngum þótt vera meira aðlaðandi valkostur í samgöngum þar sem sá sveigjanleiki og þægindi sem hann býður upp á eru að margra mati ótvíræð. Á síðustu árum hefur umræðan um bættar almenningssamgöngur orðið sífellt fyrirferðarmeiri og aukinn þrýstingur er á að efla samkeppnishæfni almenningssamgangna og draga úr vægi einkabílsins.
Tilgangur og markmið þessa námskeiðs er að kynna strætó fyrir grunnskólabörnum á aldrinum 10–11 ára og gera þau að sjálfstæðum notendum strætó. Markmiðið er að nemendur geri sér grein fyrir þeim samfélagslega og persónulega ávinningi sem þau hafa af því að nota strætó. Nemendur læra um sparnað sem hlýst af notkun strætó, áhrif einkabílsins á umhverfið og hvað ávinnst með notkun almenningssamgangna. Einnig læra þeir að lesa á leiðarkerfi og læra þannig á nærumhverfi sitt, að lesa úr tímatöflum og að skipuleggja ferðir sínar.
Kynningarmyndband Kennslumyndband